Megnið af landrými í Rússlandi er í ríkiseigu og er það eitt af því sem Rússar hafa erft frá Sovétríkjunum. Stjórnarskrárákvæði frá 1993 leyfir að vísu sölu lands, en ýmiss konar lagaflækjur hafa komið í veg fyrir að hægt væri að nýta það ákvæði. Nú hefur rússneska þingið hins vegar samþykkt lög sem gera landsölu mögulega – en þó að vísu aðeins sölu lands sem ekki er notað undir landbúnað. Túnin og akrarnir bíða síðari tíma. Þessi breyting er fagnaðarefni fyrir Rússa, því um land gildir hið sama og um aðra hluti, það er betur komið í höndum einstaklinga og félaga þeirra en ríkisins.
Óhætt er að segja að umhugsunarvert sé að á meðan Rússar stíga skref í rétta átt – stutt að vísu – þá skuli íslenska ríkið vera að sölsa undir sig landskika hér á landi. Bændur berjast víða um á hæl og hnakka að halda í þær jarðir sem þeir hafa talið sig eiga, því ríkið fer nú um og hirðir allt sem það getur. Þetta verður að teljast nokkuð öfugsnúið og ekki alveg í anda einkavæðingar á öðrum sviðum. Reyndar óháð því hvort menn eru sérstaklega fylgjandi einkavæðingu eða ekki – þá er ekki heiglum hent að finna skynsamlega réttlætingu á því að farið var af stað með svo kallað þjóðlendumál. Og ef Vefþjóðviljinn mætti ráða, sem hann má auðvitað ekki, þá yrðu þjóðlendulögin felld úr gildi, almenningarnir fengju aftur að vera almenningar svo sem alltaf hafði verið, og bændur yrðu látnir í friði. Ef einhver, ríkið eða aðrir, teldu að aðrir menn sætu yfir landi sínu, nú þá gætu þeir leitað réttar síns eftir venjulegum leiðum.