Þriðjudagur 9. október 2001

282. tbl. 5. árg.

Að sjá þetta neysluæði, einhver hefur sett kjöt í plastbakka í stað þess að setja það beint á bögglaberann.
Að sjá þetta neysluæði, einhver hefur sett kjöt í plastbakka í stað þess að setja það beint á bögglaberann.

Síðast liðinn sunnudag hófst í Ríkissjónvarpinu fyrsti þáttur af tíu í þáttaröð sem ber nafnið Spírall og fjallar um umhverfismál. Þessi fyrsti þáttur veit ekki á gott, því tilgangurinn var greinilega að innræta börnum landsins pólitíska rétthugsun í umhverfismálum. Að þessu sinni var endurvinnsla tekin fyrir og „neysluhyggjan“ fékk sinn skammt af gagnrýni. Í þættinum kom til dæmis fram að frauðplastbakkar, sem oft eru notaðir undir kjöt úr kjötborðum matvöruverslana, séu af hinu illa og þegar við förum út í búð „eigum við að segja að við viljum ekki kaupa umbúðir,“ ef marka má þáttinn. Hér eftir kaupa menn sem sagt bara eina lófafylli af nautahakki og aðra af mjólk og bera þannig heim. Innkaupaferðirnar geta orðið býsna margar og sóðalegar, en það er mikið á sig leggjandi til að standast ýtrustu kröfur öfgafullra umhverfissinna.

Nú, þó sumt í þættinum hafi verið hlægilega vitlaust, þá er það til þess fallið að ýta undir ranghugmyndir og þess vegna ekki með öllu saklaus della. Og hugsunin sem að baki þáttagerðinni býr er varhugaverð ef marka má útvarpsviðtal við annan af stjórnendum þáttanna, Halldóru Geirharðsdóttur leikkonu, því hún sagði að með þeim væri verið að gera börnin á heimilinu að einhvers konar umhverfislöggum. Í Austur-Þýskalandi var börnum innrætt að njósna um foreldra sína og láta ríkið vita ef þeir hegðuðu sér ekki í samræmi við kröfur sósíalismans og nú eiga börn á Íslandi að vakta foreldra sína og grípa inn í ef þeir víkja af braut öfgafyllstu umhverfissjónarmiða.

Það þætti fréttnæmt ef í Ríkissjónvarpinu væri ámóta áróður fyrir einhverjum öðrum skoðunum eða trúarbrögðum, en umhverfishyggja af því tagi sem hér um ræðir er lítið annað en trúarbrögð. Hætt er við að ýmsir myndu til dæmis fyrtast við ef kristnifræði væri kennd með þessum hætti í Ríkissjónvarpinu. Eða ef íslam væri predikuð á þennan hátt í þeim miðli.

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur haldið því fram að ekki sé við sig að sakast þó Ríkisútvarpið fari ár eftir ár fram úr fjárheimildum, því lög geri ráð fyrir innlendri dagskrárgerð og hún sé dýr. Þáttaröðin Spírall kostar vafalaust talsvert fé og varla er hægt að halda því fram að ekki megi spara hjá Ríkisútvarpinu meðan fé er eytt í slíkt efni. Fyrir utan þetta hlýtur líka að vera umhugsunarvert að ríkið skuli taka fjármuni af almenningi nauðugum til að senda út efni sem ætlað er sérstaklega til að heilaþvo æskulýð landsins með þeim hætti sem hér um ræðir.