Laugardagur 29. september 2001

272. tbl. 5. árg.

Í dag eru liðin 120 ár frá fæðingu Ludwig von Mises í Lemberg í Austurrísk-ungverska keisaradæminu. Vef-Þjóðviljinn hefur áður minnst á Mises við ýmis tilefni enda má finna í ritum hans hugleiðingar um sígild viðfangs- og ágreiningsefni stjórnmála og hagfræði. Mises spáði því í bók sinni Socialism nokkrum árum eftir valdarás bolsévika í Rússlandi að kommúnisminn eða sósíalisminn væri óframkvæmanlegur og hlyti að leiða til efnahagslegrar hnignunar og glundroða. Margir telja þekktasta verk hans, Human Action (1949), mikilvægasta almenna hagfræðirit síðustu aldar þótt bókin hafi mætt miklu andstreymi í upphafi en samhyggjumenn, hvort sem þeir nefndu sig kommúnista, þjóðernisjafnaðarmenn (fasista) eða bara jafnaðarmenn, sameinuðust gegn henni. Mises fór um hálfrar aldar skeið fyrir Austuríska skólanum í hagfræði og var kennari ýmissa sem síðar héldu merki hans á lofti svo sem F. A. Hayek og Wilhelm Röpke ásamt Ludwig Erhard, sem lagði grunn að efnahagslegri endurreisn Þýskalands eftir seinni heimsstyrjöld.

Þeir sem hafa viljað kynna sér ævi Mises hafa frá 1984 getað lesið bókina My Years with Ludwig von Mises sem eiginkona hans Margit von Mises ritaði. Þar er hins vegar ekki fjallað mjög um kenningar hans. Undanfarin 20 ár hefur starfað rannsóknarstofnun sem kennd er við Mises. Fyrr á þessu ári kom hins vegar út bók um Mises eftir Israel Kirzner sem var nemandi Mises við New York University og er sjálfur prófessor í hagfræði við sama skóla. Kirzner er líklega þekktasti núlifandi hagfræðingur Austurríska skólans og enginn núlifandi hagfræðingur þekkti betur til Mises og verka hans en einmitt Kirzner. Það er því mikill fengur að þessari bók. Í bókinni fjallar Kirzner bæði um um ævi Mises og hugmyndir hans. Bókin heitir að sjálfsögðu Ludwig von Mises.

Í tilefni 120 ára afmælis Mises býður Andríki þeim sem kaupa Lögin eftir Frédéric Bastiat Hugleiðingar um hagmál eftir Ludwig von Mises í íslenskri þýðingu í kaupbæti. Tilboðið stendur til föstudags eða á meðan birgðir endast.