Alþjóðabankinn hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að fátækir geti notið velgengni hinna ríku með því að bæta hag sinn af sjálfsdáðum. Til þess þurfi þeir þó aðgang að þeim frjálsu stofnunum, formlegum og óformlegum, sem hinir efnameiri hafa. Bankinn gaf út fyrir stuttu skýrslu sem lýsir vanda fátækra í fátækum ríkjum. Þegar leitað er leiða til að auka lífsgæði þeirra telur bankinn heppilegt að líta til og læra af þeim ríkjum sem bjóða upp á betri lífsskilyrði. Og bankinn spyr hvað greini til dæmis Mósambik frá Ástralíu? Jú, meðal annars það að stofnun fyrirtækja er mun styttra, einfaldara og ódýrara ferli hjá andfætlingum okkar heldur en í hinu fátæka ríki Afríku. Bankinn bendir líka á sem dæmi að í Slóveníu er tekur það um fjögur ár að fá lausn ágreinings um innistæðulausa ávísun en í Singapúr skýrast málin á um 35 dögum.
Og Alþjóðabankinn bendir á að einkareknir fjölmiðlar veita stjórnvöldum betra aðhald en ríkisreknir. Skýrsluhöfundar hafa svo komist að þeirri niðurstöðu að mikið og flókið laga- og regluverk sé vandamál, sérstaklega í fátækjum ríkjum. Roumeen Islam ritstjóri skýrslunnar segir að slíkar reglur verndi hvorki neytendur né atvinnustarfsemi heldur séu til þess fallnar að auka spillingu, dreifa kröftum og minnka framleiðni.
Árið 2001 er ekkert verra ár en hvað annað til að minna á mikilvægi frjáls markaðar og nauðsyn þess að menn geti átt í viðskiptum án afskipta hins opinbera en tæpast er um ný sannindi að ræða því í aldir hafa menn bent á að frelsi, til dæmis á fjármagnsmarkaði, er forsenda þess að hinir fátækari geti átt þess kost á að bæta kjör sín. Þeir efnameiri hafa frekar tök á að gangast við kostnaðinum og óhagræðinu sem fylgir frelsisskerðandi löggjöf. Það er verðugt verkefni fyrir velviðjaða Vesturlandabúa sem vilja bæta hag hinna fátæku að greiða úr regluverki þróunarríkjanna og koma á framfæri mikilvægi frjáls hagkerfis. Bygging íþróttavallar í Kabúl, ráðstefnur um kynþáttafordóma og kvennaráðstefnur eru ekki á óskalista fátækra í fátækum ríkjum.