Hinn 22. september á síðasta ári stóð borgarstjórn Reykjavíkur fyrir svonefndum „bíllausum degi“. Borgarfulltrúar R-listans og fleiri andstæðingar einkabílsins reyndu að telja fólki trú um að notkun einkabílsins væri á einhvern hátt syndsamleg. Meðal þess sem notað var gegn einkabílnum var að hann væri ekki eins umhverfisvænn og strætisvagninn. Þetta reyndist þó ekki rétt þegar betur var að gáð. Það er meiri útblástur frá strætisvagnafarþega í Reykjavík en farþega í venjulegum fólksbíl. Reyndar tóku fáir, ef einhverjir, mark á þessum áróðri borgaryfirvalda og umferðin í Reykjavík var eins og hvern annan dag. Jafnvel borgarfulltrúarnir sem hvöttu hinn almenna mann til að nota ekki bílinn fóru sjálfir allra sinna ferða á einkabílum sínum. Enginn munur var á notkun bílastæða í Ráðhúsi Reykjavíkur þennan dag og aðra.
Í stuttu máli sagt: „Almenningsamgöngur“ í Reykjavík eru ekki notaðar af almenningi. Einkabíllinn er helsta samgöngutæki almennings.
Í dag er einnig 22. september og borgarstjórnir víða um Evrópu halda uppteknum hætti og hvetja fólk til að skilja bílinn eftir heima. Þó ekki borgarstjórn Reykjavíkur. Í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi var rætt við einn borgarfulltrúa R-listans og hann inntur eftir því hvers vegna bíllausi dagurinn er ekki haldinn hátíðlegur í Reykjavík í ár. Borgarfulltrúinn taldi að 22. september væri „ekki heppilegur tími“ fyrir dag af þessu tagi. Þótt veðrið í Reykjavík í dag, innan við 10 stiga hiti, rigning og rok, staðfesti svo sem að borgarfulltrúinn hefur rétt fyrir sér má hins vegar gera ráð fyrir veðri af þessu tagi hvaða dag ársins sem er.
Þá er spurning hvaða dagur væri heppilegri sem bíllaus dagur. Um það fengust engin svör frá borgarfulltrúa R-listans en líklega á hann við sólríkan sumardag. En á slíkum dögum er þó hætt við að menn vilji einmitt vera á bíl til að komast skjótt heim úr vinnu til að kveikja upp í grillinu eða til að komast sem fyrst upp í bústað eða á golfvöllinn.