Framtíð Evrópusambandsins var rædd á ráðstefnu í Berlín í síðustu viku. Þar lýsti forseti þýska þingsins þeirri skoðun sinni að Evrópu yrði sett stjórnarskrá eigi síðar en árið 2004. Vegna útvíkkunar sambandsins í austur taldi hann að nú væri rétti tíminn til að taka þetta „djarfa skref áfram“. Reynslan af þessu ágæta sambandi hefur einmitt verið sú að stuðningsmönnum þess þykir ævinlega ástæða til að taka djörf skref í átt til samruna. Þeir sem ganga inn í þennan klúbb vita aldrei hvers konar klúbbur þetta er, því hann tekur sífelldum breytingum, en þeir hafa þó getað gengið að því vísu að áfram yrði reynt að gera þennan klúbb þjóðríkja að einu ríki. Í því virðist „Evrópuhugsjónin“ vera fólgin þegar grannt er gáð.
Stuðningsmenn Evrópusambandsins hafa svo sem tekið eftir þessu og sumir þeirra hafa jafnvel manndóm í sér til að viðurkenna að sambandið seilist æ lengra og að það reynir að auka áhrif sín sem það frekast má. Nú hafa nokkrir Danir, sem allir eru stuðningsmenn Evrópusambandsins, viðurkennt þetta og lýst áhyggjum sínum af þróuninni. Dansk Radio segir frá einum þeirra, en sá er Marlene Wind við Kaupmannahafnarháskóla sem stundar rannsóknir á Evrópusambandinu. Hún bendir á að danska þingið ráði ekki lengur ferðinni, nú stjórni tilskipanir frá Evrópusambandinu. Þessari staðreynd sé vísvitandi haldið frá kjósendum og ástæðan sé sú að stjórnmálamennirnir séu hræddir um að kjósendurnir muni ekki sætta sig við sannleikann.
Þetta hljómar kunnuglega því stuðningsmenn Evrópusambandsins hér á landi hafa lítið – jafnvel ekki neitt – viljað gera úr ókostum sambandsins, sérstaklega yfirgangi þess gagnvart aðildarríkjunum. Í draumum hörðustu stuðningsmannanna er þetta mikið sæluríki og minna lýsingarnar helst á annað sæluríki sem starfaði lungann úr síðustu öld, en aðeins austar. Hörðustu stuðningsmönnunum er þó vorkunn. Þeir sjá sig í hillingum á ríflegum launum milli skjalabunkanna í Brussel – að semja nýjar tilskipanir.