Þegar Samfylkingin bauð fram í síðustu kosningum kynnti flokkurinn nýtt og glæsilegt merki sem bestu menn flokksins höfðu hannað. Þegar betur var að gáð reyndist hið nýja og glæsilega merki vera all nákvæm eftirlíking hins heimsfræga þýska vörumerkis, Sagimex. Samfylkingarmenn vilja ekki vera þekktir fyrir slík vinnubrögð og hafa því kynnt nýtt merki sem mun bera hróður þeirra á næstu árum. Og til að öllum verði ljóst að þeir hafi upphugsað merki sitt sjálfir en notist ekki við alþekktar fyrirmyndir þá ákváðu Samfylkingarmenn að taka einfaldlega upp þjóðfána Japans.
Já og hvað er eðlilegra en þetta? Að svona dæmigerður hentistefnuflokkur bjóði héðan af fram undir hentifána?
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir heitir kona og er arkitekt, formaður Landverndar, varaþingmaður Framsóknarflokksins og fleira. Hún tjáir sig stundum í fjölmiðlum, reyndar af mismikilli þekkingu en jafnan af töluverðri einurð. Á dögunum leitaði DV til hennar og spurði hana hvort rétt sé að hækka afnotagjöld Ríkisútvarpsins, en eins og menn vita glímir Ríkisútvarpið nú við mikinn fjárhagsvanda. Ólöf Guðný vildi ekki hækka afnotagjöldin, eða eins og hún segir sjálf: „Ég er á móti því að leggja auknar álögur á heimilin í landinu, ef ekkert kemur á móti. Eðlilegra teldi ég að leita annarra leiða ef Ríkisútvarpið þarf aukið fjármagn, einkum og sér í lagi þar sem fólk getur ekki valið hvort það er í áskrift ef það á útvarps- eða sjónvarpstæki. Á meðan ríkið stendur í rekstri fjölmiðlafyrirtækis teldi ég eðlilegt að rekstur þess yrði fjármagnaður með sköttum landsmanna og ég tel að stjórnvöld ættu að huga að þeirri leið.“
Jamm. Hún vill ekki auka afnotagjöldin af því hún er á móti auknum álögum „á heimilin í landinu“. En vill þess í stað ná í þetta fé „með sköttum landsmanna“.