Hæstaréttarlögmaður einn skrifaði grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag og færði þar rök fyrir þeirri skoðun sinni að nýlegur úrskurður skipulagsstjóra í umdeildu máli væri ekki í samræmi við lög. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins sagði frá þessu sama kvöld og tók sérstaklega fram í fréttinni að lögmaðurinn væri reyndar sjálfstæðismaður og ætti þar að auki hlut í lögfræðiskrifstofu sem hefði unnið fyrir Landsvirkjun. Í DV í gær var svo grein lögmannsins rædd við Árna Finnsson, formann „Náttúruverndarsamtaka Íslands“ sem lengi var starfsmaður Greenpeace á Íslandi. Árni hafði ýmis sterk rök gegn rökum lögmannsins. Lögmaðurinn er semsagt „eigandi þeirrar lögmannsstofu sem hefur unnið hvað mest með Landsvirkjun í þessu máli“ auk þess að vera formaður einkavæðingarnefndar og sérstakur „bandamaður forsætisráðherra“. Og þá eru mótrök Árna við rökum lögmannsins upp talin.
Og kannski þykir mönnum málið útrætt með þessu. Þetta er bara sjálfstæðismaður og svo hefur stofan hans unnið fyrir Landsvirkjun, svona maður segir ekki satt orð. Það þarf ekki einu sinni að hrekja það sem svona menn segja. Gaman væri samt að vita hvort Ríkissjónvarpið mun halda þessum nýja sið sínum, – sem þarf alls ekki að vera óeðlilegur – að taka fram hvaða skoðanir menn aðhyllast, þegar það vitnar í menn. Það væri ekki svo galið að taka fram hvaða skoðanir þeir hafa í raun, allir „óháðu sérfræðingarnir“ og „hlutlausu fræðimennirnir“ sem alltaf er verið að draga fram og vitna í. Já, eða fréttamennirnir sjálfir, ekki eru þeir skoðanalausir, þó þeir séu oft óflokksbundnir rétt á meðan þeir vinna á fjölmiðlunum. Rétt eins og eitthvert hlutleysi sé fólgið í því. Reyndar væri ekki svo vitlaus krafa að allir fréttamenn gæfu upp sínar meginskoðanir á stjórnmálum sem og afstöðu sína til heitustu deilumálanna sem þeir sjálfir fjalla um. Hvað segja menn um það?