Ögmundur Jónasson, sem er á sama tíma þingmaður, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) hefur sem kunnugt er hafnað því að LSR taki þátt í að kanna hagkvæmni þess að taka þátt í fjármögnun álvers á Austurlandi. Skýringin sem Ögmundur gefur á því að hann þvertekur fyrir að sjóðurinn komi nokkuð nálægt álversframkvæmdum er að þar sé um áhættufjárfestingu að ræða. Þess vegna er ekki einu sinni hægt að kanna kosti eða ókosti fjárfestingarinnar. Ýmsir sem hlustuðu á þennan rökstuðning urðu undrandi því þeir töldu að öllum fjárfestingum fylgdi nokkur áhætta, en aðrir hafa líklega reynt að túlka orð Ögmundar honum í vil með því að skilja þau sem svo að hann vildi aðeins að LSR fjárfesti þar sem áhætta væri sem allra minnst. Þessi síðarnefndi hópur hefur ekki viljað trúa því að Ögmundur væri að nota formennsku sína hjá lífeyrissjóðnum í pólitískum leik og hafa ályktað sem svo að allar fjárfestingar sjóðsins væru miklu áhættuminni en álver. Þetta væru allt fjárfestingar sem telja mætti til allra áhættuminnstu fjárfestinga sem kostur væri á.
Einhverra hluta vegna hefur ekki verið kannað hversu trúleg þessi áhættukenning Ögmundar er og þess vegna hefur hann komist upp með þennan málflutning. Með því að lesa nýjasta ársreikning LSR, sem Ögmundur undirritaði 27. apríl á þessu ári, má þó sjá að hann hefur engan veginn haldið sig við að fjárfesta ekki í áhættusömum fyrirtækjum. Í eignasafni LSR eru hlutdeildarskírteini í ýmsum hlutabréfasjóðum, þar á meðal nokkrum sem teljast til áhættusamra sjóða. Þetta eru sjóðir sem fjárfesta í hlutabréfum svokallaðra hátækni- eða upplýsingatæknifyrirtækja, þ.e. þeirra fyrirtækja sem fallið hafa hvað mest í verði á síðustu átján mánuðum eða svo. Og þar á meðal eru sjóðir sem vermt hafa botninn í ávöxtun sjóða í heiminum á síðustu mánuðum. Fyrir utan þetta hefur Ögmundur fyrir hönd sjóðsfélaga í LSR fjárfest í fjölda fyrirtækja á íslenska hlutabréfamarkaðnum, þar á meðal fyrirtækja í fyrrnefndum hátækni- og upplýsingatæknigeira, og getur hann varla haldið því fram að þar sé um áhættulausar fjárfestingar að ræða. Hann fjárfestir í þessum fyrirtækjum en er ekki tilbúinn til að kanna hvort það borgi sig að fjárfesta í álveri.
Það verður hreinlega að segjast eins og er að þegar ársreikningur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er skoðaður stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Ögmundar Jónassonar, þingmanns VG, formanns BSRB og stjórnarformanns LSR. Það jákvæðasta sem hægt er að segja um fjárfestingar Ögmundar er að samkvæmt ársreikningnum hefur LSR ekki fjárfest í Samvinnuferðum-Landsýn. Þar átti BSRB hins vegar talsverðan hlut þar til fyrirtækið fór næstum á hausinn. Félagar í lífeyrissjóði Ögmundar báru því ekki það tap, heldur þeir sem neyddir eru til að greiða formanni BSRB umtalsverðan hluta launa sinna í hverjum mánuði. Það væri ef til vill reynandi fyrir þá sem hyggjast reisa álver á Austurlandi að tala við formann BSRB en ekki stjórnarformann LSR um fjármögnun.
Lesendur eru að lokum beðnir að rugla ekki saman þeim þremur mönnum sem eru á myndunum hér að neðan. Þó þeir séu í fljótu bragði svipaðir er ekki svo í raun og þeir láta hagsmuni eins aldrei hafa áhrif á gjörðir annars: