Þriðjudagur 21. ágúst 2001

233. tbl. 5. árg.

Alþingismenn hér á landi misskilja oftar en ekki hlutverk sitt og setja meðborgurum sínum reglur um hitt og þetta sem þingmenn varðar ekkert um. Þetta eru „góðu málin“ sem enginn þorir að vera á móti því sá sem er á móti þeim, hann er, ja, í besta falli ekki góður. Sá sem ekki vill hertar öryggisreglur hlýtur til dæmis að vera hreinasta illmenni. Sá sem ekki vill láta hið opinbera rannsaka hættuna af einhverju er auðvitað alveg agalegt fúlmenni. Og sá sem stendur gegn því að lýst sé yfir degi kolmunnans 18. júní eða vill ekki yfirlýsingu um fíkniefnalaust Ísland árið 2002, hann er auðvitað ferlegt meinhorn.

Alþingi Íslendinga er svo sem ekki eitt um að samþykkja ýmsar misskaðlegar eða tilgangslausar reglur og yfirlýsingar. Bandaríkjaþing, sem ætti að hafa nægum áríðandi verkefnum úr að moða, gefur sér tíma til ótrúlegustu samþykkta. Og enn fleira er auðvitað lagt til en kemst ekki að þrátt fyrir að málefnið skipti óumdeilanlega sköpum fyrir bandaríska þjóð. Ein tillaga sem þingmaður nokkur taldi þingtæka var að gera 24. september að degi sameiginlegrar kvöldmáltíðar allrar fjölskyldunnar. Ástæðan er sú að þingmaðurinn telur sameiginlegar máltíðir fjölskyldunnar mikilvægar og vel má vera að hann hafi rétt fyrir sér um það. Kvöldverðir fjölskyldunnar sem ríkið skipuleggur eru hins vegar þess eðlis að fólk hlyti að fá óbragð í munninn, jafnvel þó mamma byði upp á sinn besta rétt.

Svo er það annar þingmaður sem vill festa ákveðinn dans sem þjóðdans Bandaríkjanna og telur ekki fullnægjandi að 31 ríki hafi þegar samþykkt dansinn sem sinn dans. Nei, dansinn dunar ekki af nægum krafti sem ríkisdans einstaks ríkis, hann verður að vera alríkisdans ef gagn á að vera af dillinu. Og ekki skortir nú röksemdirnar fyrir alríkisdansi: „Svo virðist sem allar þjóðir dansi,“ segir þingmaðurinn og öllum verður ljóst að málið þolir enga bið, en þó mun það að vísu standa í þinginu enn um sinn.

Eftir að repúblikanar náðu völdum á Bandaríkjaþingi um miðjan síðasta áratug var reynt að standa gegn því að tilteknum dögum, mánuðum og árum yrði úthlutað til ákveðinna gæluverkefna. Þetta gekk þó ekki lengi og tillögurnar hrúgast inn. Ein tillagan er að næsta ár verði ár rósarinnar, sem er afar þarft. Í ágúst samþykkti fulltrúadeildin að september yrði Þjóðarmánuður endurhæfingar vegna áfengis og fíkniefna. Hefði öldungadeildin náð að afgreiða málið mætti ljóst vera að í næsta mánuði yrðu straumhvörf í endurhæfingu ógæfusamra fíkla í Bandaríkjunum. Ekki liggur fyrir hvort kaldlyndi eða tímaskortur öldungardeildarþingmanna kom í veg fyrir framgang málsins, en víst er að sumum þeirra manna sem misskilja hlutverk þingmanna og ríkisins þykir ábyrgð þessara öldungardeildarþingmanna mikil.