Mánudagur 20. ágúst 2001

232. tbl. 5. árg.

Í nýjasta hefti The Economist er sérstök úttekt þar sem fjallað er um fjárstuðning við listir. Þar kemur fram að víða í Evrópu fari stuðningur ríkisins við listir minnkandi. Sem dæmi er nefnt að ríkisstuðningur við Fílharmoníusveitina í Berlín hafi verið minnkaður úr 57% af heildartekjum sveitarinnar árið 1997 í rúm 48% í fyrra og að stuðningur við Scala leikhúsið í Mílanó hafi verið lækkaður úr meira en helmingi rekstrartekna í rúm 44%. Þetta telur tímaritið að kunni að vera forsmekkurinn af því sem koma skal. Að áliti VefÞjóðviljans er þetta ánægjuleg þróun og það er einnig ánægjulegt að í úttektinni kemur fram að á sama tíma eykst stuðningur einkaaðila. Þetta er í samræmi við það sem haldið hefur verið fram hér á þessum stað, nefnilega að hinn mikli stuðningur hins opinbera við ýmsa starfsemi, þar með talda listastarfsemi, dragi úr stuðningi einkaaðila. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður og þær koma að sumu leyti fram í fyrrnefndri úttekt.

Þegar ríkið er umsvifamikið á einhverjum markaði dregur óhjákvæmilega úr umsvifum einkaaðila á sama markaði. Þegar „markaðurinn“ sem um ræðir er „stuðningur við gott málefni“ er hætt við að þessi áhrif verði enn meiri en ella. Fyrir því má færa þau rök að á venjulegum markaði, til dæmis útvarpsmarkaðnum íslenska, sjá menn hagnaðarvon þrátt fyrir að ríkið þvælist fyrir og hafi að ákveðnu leyti yfirburðastöðu. Þegar listastarfsemi nýtur ríkulegra ríkisstyrkja er hætt við að gjafir einkaaðila verði ræfilslegar í samanburði við fúlgurnar sem skattgreiðendur eru neyddir til að láta af hendi. Þá verður minna varið í að vera styrktaraðili, enda vita allir að starfsemin stendur ekki og fellur með styrkjum einkaaðilans. Ávinningur hans af styrkveitingunni, sem felst í vellíðan og bættri ímynd, minnkar eftir því sem styrkurinn skiptir minna máli.

Bandaríkin og Evrópu eru ólík hvað varðar ríkisstyrki til menningar. Þeir vega ekki þungt í Bandaríkjunum, en í Evrópu hafa þeir fram til þessa haldið uppi stórum hluta liststarfseminnar. Með breyttu hugarfari í Evrópu er engin ástæða til að ætla að listin þurfi að þola þá niðurlægingu til frambúðar að draga fram lífið af nauðungargreiðslum almennings. Ef rétt er haldið á málum og ýtt undir þróun í rétta átt er engin ástæða til að ætla að í Evrópu og á Íslandi geti ekki þrifist öflug listastarfsemi án stuðnings ríkisins. Nema auðvitað ef Evrópubúar eru bæði samansaumaðri en Bandaríkjamenn og að auki minna fyrir listir. En þá væri svo sem hvort eð er hæpið í meira lagi að neyða listunum upp á þá með núverandi fyrirkomulagi.