Ég sá hana fyrst á æskuárum ósnortin var hún þá. Hún fyllti loftið af angan og ilmi æsandi losta og þrá. Síðla á kvöldin við fórum í felur mér fannst þetta svolítið ljótt. En alltaf var þetta meiri og meiri munaður hverja nótt. |
Ég ætlaði seinna að hætta við hana ég hélt að það yrði létt. Ég var andvaka næstu nætur því nú voru takmörk sett. Endurminningar örvuðu blóðið ástin mér villti sýn. Innan skamms fór ég aftur til hennar og eftir það var hún mín. |
Hún fylgir mér enn þá svo trygg og trú svo tággrönn og hnakkakert. Aldrei hefur hún öðrum þjónað né annarra varir snert. Hvenær sem grípur mig hugarangur hún huggar mig raunum í: Þá treð ég í hana tóbaksmoði og tendra svo eld í því. |
Einhvern veginn svona hljómar ljóðið Pípan eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Ágætis ljóð og væri skemmtilegt að hafa það yfir ef það væri ekki því miður ólöglegt hér á landi. Og Vefþjóðviljinn hefur þær leiðinlegu fréttir að færa, að síðastliðinn föstudag gerðist íslensk útvarpsstöð, Útvarp saga, sig seka um að spila þetta lag fyrir áheyrendur. Það er gróft brot á lögum enda er ljóðið hvorki samið né flutt gagngert í því skyni að vara við „skaðsemi tóbaks“.
En þó flutningur þessa ljóðs sé glæpsamlegur á Íslandi eftir að „tóbaksvarnalög“ þeirra Jónínu Bjartmarz og Þorgríms Þráinssonar tóku gildi, þá er ekki þar með sagt að menn eigi þess engan kost að hafa þetta litla ljóð yfir. Menn gætu til dæmis farið til Afghanistan og látið reyna á hvort nokkur þar amist við slíku. Sennilega eru yfirvöld þar á bæ öllu frjálslyndari en Jónína Bjartmarz þegar kemur að „tóbaksvörnum“.
Á dögunum bárust að minnsta kosti tvær fréttir af borgarmálum í Reykjavík. Önnur var þess efnis að borgaryfirvöld og Golfklúbbur Reykjavíkur hefðu „gert með sér samning“ um að borgin styrkti klúbbinn um 80 milljónir króna á næstu árum – það er að segja: borgaryfirvöld „sömdu“ við hóp golfáhugamanna um taka milljónir króna frá þeim útsvarsgreiðendum sem ekki stunda golf og færa þær þessum sama hópi golfáhugamanna. Sýnilegur ávinningur fyrir útsvarsgreiðendur er enginn, nema að vísu fyrir útsvarsgreiðandann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem fékk fyrir vikið að baða sig í ljósi fjölmiðla á Íslandsmótinu í golfi.
Hin fréttin af borgarmálunum var um að þrátt fyrir sjö ára stjórn vinstri manna í borginni nyti D-listinn enn ekki stuðnings meirihluta kjósenda í skoðanakönnunum. Hvernig ætli það sé, ætli það kunni að spila inn í þetta, að þessi svo kallaði minnihluti segir næstum aldrei nokkurn skapaðan hlut við endalausum útgjöldum og gæluverkefnum meirihlutans? Ætli það skipti máli að minnihlutinn virðist vera svo ofboðslega hræddur við að segja nokkurn hlut sem kynni að stuða nokkurn mann, að nú er svo komið að margir borgarbúar hafa á tilfinningunni að í borgarstjórn sitji slakur meirihluti og enginn minnihluti?
Svo var önnur frétt í síðustu viku. Hún sagði frá því að í skoðanakönnun hefðu nokkrir landsmenn lýst ánægju með störf Geirs H. Haardes fjármálaráðherra en að nákvæmlega enginn hefði sagst vera óánægður með þau. Og þá má spyrja, sú staðreynd að enginn telji sig hafa neitt upp á fjármálaráðherra að klaga, ætli hún sé sérstaklega til marks um að hann sé harður í ráðuneytinu, standi vörð um hagsmuni ríkissjóðs og verjist þrýstihópunum? Eða ætli hún sé til marks um að hann reyni að stuða sem allra fæsta, samþykki flest útgjöld og reyni að brosa flestum við?
Múrinn á afmæli í dag og í hugum allra sæmilegra manna er hann jafn ógeðfelldur nú sem fyrr. Hann er flestum mönnum tákn um það versta sem vinstri menn hafa haft upp á að bjóða. VefÞjóðviljinn minnir á ársgömul skrif sín um þennan ófögnuð.