Föstudagur 3. ágúst 2001

215. tbl. 5. árg.

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann gerði misjafna meðferð fjölmiðla á stjórnmálamönnum sem hafa misstigið sig að umfjöllunarefni. Tilefni greinarinnar eru einkennileg, en gamalkunn, viðbrögð nokkurra þingmanna úr röðum vinstri manna við ábendingum þess efnis að spilling kunni að leynast víðar en í Sjálfstæðisflokknum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að ýmsum þingmönnum vinstri flokkanna er mjög í nöp við að mál Árna Johnsens séu borin saman við önnur sem skotið hafa upp kollinum á síðustu áratugum. Auðvitað eru þessi mál hvert með sínum hætti og aðstæður ólíkar en þau eiga það þó sameiginlegt að menn taka það sem þeir ekki eiga. Menn hafa tekið ófrjálsri hendi kantsteina, kjóla, áfengi og skattfé eða tekið ónýt veð hjá vinum fyrir hönd ríkisins. En þó málin eigi þennan sameiginlega þátt hlutu þau vissulega ólíka meðferð og höfðu ólíkan endi. Í sumum tilvikum hafa menn jafnvel verið gerðir að sendiherrum, forsetum lýðveldis og borgarstjórnar en í engum þeirra tilvikum sem nefnd hafa verið til samanbuðar hafa vinstri menn sagt af sér.

Í grein sinni segir Gunnlaugur meðal annars: „Þegar ástæða hefur verið til að fjalla um spillingarmál vinstri manna, t.d. vegna þess að þeir hafa verið í framboði, hafa samherjar þeirra varið þá, burtséð frá öllum staðreyndum og rökum. Þeir hafa snúið vörn í sókn og talað um „skítkast“ hægri manna. Þetta gerðist bæði þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til embættis forseta og þegar Helgi Hjörvar og Hrannar B. Arnarsson buðu sig fram í borgarstjórn. Í hvorugu þessara tilvika voru ýmsir fjölmiðlar jafnduglegir og nú við að upplýsa málin svo kjósendur fengju upplýsingar um spillinguna. Þeir voru þess í stað duglegir við að fjalla um að „harka væri hlaupin í kosningabaráttuna“ og taka viðtöl við alla þá sem sökuðu hægri mennina um skítkast. Ekki ber að líta svo á að Árni Johnsen hafi almennt fengið ósanngjarna meðferð í fjölmiðlum. Fjölmiðlar hafa yfirleitt staðið sig mjög vel í hans máli og það hefði verið beinlínis rangt að hlífa honum. Hins vegar hlýtur að vera eðlileg krafa að framvegis sé fjallað á sama hátt um spillingarmál vinstri manna og fjölmiðlar sem þykjast vilja standa undir nafni sýni ekki hlutdrægni með aðgerðaleysi sínu eins og þeir hafa gjarnan gert.“