Sagt var frá því á vef Morgunblaðsins í nótt að brotist hefði verið í póstkassa í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Haft var eftir lögreglu að engu hefði verið stolið en nokkur bréf opnuð. Taldi lögreglan að þeir sem þarna voru að verki hefðu haft áhuga á að lesa álagningarseðla samborgara sinna – og væri það bíræfni. Vissulega er það ekki aðeins bíræfni heldur ber vott um fleiri einkennilegar tilhneigingar að gramsa með þessum hætti í einkamálum nágranna sinna, ekki síst þegar haft er í huga að ríkið býður upp á aðstöðu hjá skattstjórum landsins til að kynna sér það sem lagt er á landmenn alla. Þar eru stólar og borð og jafnvel reiknivélar til að reikna megi út hversu miklu hærri tekjur nágranninn hefur en maður sjálfur.
En það eru fleiri sem hafa lítið siðferðisþrek en hinn bíræfni póstkassagramsari í Breiðholtinu. Til dæmis þeir sem gramsa ekki aðeins í einkamálum manna heldur gefa gramsið einnig út á prenti. Einn þeirra er Jón G. Hauksson ritstjóri „Frjálsrar“ verslunar. Rætt var við Jón um þetta mál í Fréttablaðinu í gær þar sem hann ver birtingu álagningarskrár og dreifingu sína á þeim upplýsingum sem þar koma fram. Þar er haft eftir Jóni: „Rökin eru þau að það skipti[r] almenning miklu máli hverjir halda uppi samneyslunni í þjóðfélagi þar sem sumir borgar mjög háa skatta og aðrir litla eða jafnvel enga.“ Það er út af fyrir sig forvitnilegt að ritstjóri á viðskiptatímariti þekki ekki samsetningu tekna ríkissjóðs betur en svo að hann haldi að mæla megi framlag manna til samneyslunnar með því hvað þeir greiða í tekjuskatt. Eru virðisauka-, fjármagnstekju- og eignarskattur ekki til í heimi ritstjórans? Hvað með vörugjöld? Þau geta skipt milljónum króna af einum bíl svo dæmi sé tekið. Þarf þá ekki að mæla þau líka á hverjum manni og gefa út í „Frjálsri“ verslun? Allt svo tryggja megi að allir viti allt um hvað allir leggja til samneyslunnar?
Og Jón hefur fleiri forvitnileg rök á hraðbergi fyrir birtingu álagningarskrárinnar: „Þetta getur líka komið í veg fyrir tortryggni og Gróu sögur og varið einstaklingana fremur en skaðað.“ Ætli „Frjáls“ verslun hafi nokkru sinni komist hjá því að leiðrétta þær upplýsingar úr álagningarskránni sem hún hefur birt? Og sjálfar upplýsingarnar úr álagningarskránni eru ekki alltaf nákvæmar enda er aðeins um álagningu að ræða en ekki endilega það sem menn greiða þegar upp er staðið. Einu áreiðanlegu upplýsingarnar sem starfsmenn „Frjálsrar“ verslunar hafa um tekjur manna eru upplýsingar um eigin kjör. Þeir gætu vissulega komið í veg fyrir að sögur fari á kreik um laun starfsmanna „Frjálsrar“ verslunar með því einfaldlega að birta launaseðla sína í þágu „upplýsingaþjóðfélagsins“ sem Jón telur að byggist á því að álagningarskráin sé birt. En birta starfsmenn „Frjálsrar“ verslunar þessar einu áreiðanlegu upplýsingar sem þeir hafa um tekjur manna og hvað þeir „leggja til samneyslunnar“? Nei, reyndar ekki.