Vísindamenn geta haft mikil áhrif með rannsóknum sínum og kenningum. Það kemur því ekki á óvart að ýmsir reyna að hafa áhrif á störf þeirra. Í bókinni Silencing Science sem kom út fyrir tveimur árum leiðbeina höfundarnir, Steven Milloy og Michael Gough, lesendum um það hvernig menn geta rutt óþægilegum vísindarannsóknum úr vegi. Í inngangi bókarinnar útskýra þeir hvað þeir eiga eiginlega við með því að vísindin geti verið óþægileg fyrir ýmsa hópa:
Standa vísindi þér fyrir þrifum? Veistu hvernig þú getur hagnýtt þér fáfræði, ótta og tilfinningavellu? Nýturðu þess ef til vill? Lögfræðingur í margmilljóna skaðabótamáli fyrir fólk sem segist hafa orðið fyrir tjóni en vitnisburður nokkurra vísindamanna mun gera kröfur þínar að engu. Öfgafullur umhverfisverndarsinni sem furðar þig á því að bölsýnispár um áhrif tilbúinna efna á umhverfið hafa ekki ræst. Starfsmaður „matarlöggunnar“ sem ert miður þín yfir því að ný efni í stað fitu og sykurs eru að gera starf þitt að engu. Kerfiskarl hjá hinu opinbera sem átt það á hættu að vísindamenn afhjúpi nýjar reglugerðir sem óþarfar og óhagkvæmar. Sölumaður kostnaðarsamra endurvinnsluaðferða sem hefur hag af móðursýkislegri umræðu um umhverfismál. Trúarleiðtogi sem hefur lýst því yfir að þekking fari ekki saman með trúarsannfæringu. Metnaðarfullur maður, segjum frá Tennessee, sem átt allt undir því að almenningur trúi því að andrúmsloft jarðar líkist garðskála. Ruglaður andstæðingur tækniframfara sem gerir tilraunir til að fækka vísindamönnum um einn í einu frá kofa þínum í óbyggðum Montana. Ef þú ert eitthvað af ofantöldu hentar þessi bók þér. Þetta er handbók um hvernig þú getur lagað vísindin að heimspeki þinni hversu gáfuleg eða vitlaus hún kann að vera. Í bókinni er kennt hvernig: Stöðva má vísindarannsóknir áður en þær hefjast. Koma má í veg fyrir að rannsóknarniðurstöður verði birtar. Hvernig má fela niðurstöður sem þegar eru til staðar. Koma í veg fyrir umræðu. Ofsækja og hræða vísindamenn með þeim hætti að þeir óska þess að hafa valið sér þægilegra starf, til dæmis sem danskennari á Titanic. |
Og höfundarnir sitja ekki við orðin tóm. Þeir taka ýmis dæmi af því hvernig ráðskast er með vísindamenn og niðurstöðum þeirra haldið leyndum eða hagrætt.
Eitt dæmið sem þeir nefna er frá 1994 þegar Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) lagði til nýjar takmarkanir á útblæstri bennisteinstvíoxíðs. Stofnunin leitaði álits astmasérfræðinga á afleiðingum útblástursins fyrir astmasjúklinga. Kolanámaiðnaðurinn bað tvo vísindamenn að fara yfir gögn EPA. Annar var prófessor við Chicago háskóla og hinn við Jefferson læknaskólann í Philadelphia. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að tillögur EPA væru ekki byggðar á vísindalegum grunni. Þeir ætluðu því að skila greinargerð um það til EPA. En skömmu síðar tilkynnti annar þeirra að Bandarísku lungnasamtökin hefðu lagt að sér að gefa ekki álit sitt á málinu. Samtökin gáfu til kynna að gæfi hann álit sitt gæti það teflt í tvísýnu heiðursritstjórastöðu við hið virta tímarit American Journal of Respiratory and Critical Care Medicine sem samtökin gefa út. Hinn fékk sambærileg skilaboð frá samtökunum sem áður höfðu sýnt þeim ýmsan heiður fyrir vísindastörf. EPA veitti hins vegar samtökunum 3,7 milljóna dala styrk.