Fimmtudagur 19. júlí 2001

200. tbl. 5. árg.

Hefur hver til síns ágætis nokkuð. Meira að segja Árni Johnsen, sá hataði maður, hefur skyndilega fengið hlutverk þar sem hann má koma að gagni í þjóðfélaginu. Nú þegar landsmenn hafa skipst í tvær andstæðar fylkingar, Árna Johnsen og rest, þá er vandfundinn sá maður sem ekki getur hneykslast á þingmanninum og öðlast þannig aukinn siðferðisstyrk um stund. Og það sem meira er: menn eru í fullum rétti þegar þeir hneykslast á Árna Johnsen. Árni hefur nefnilega komið sínum málum svo að jafnvel hörðustu stuðningsmenn hans virðast ekki sjá neina skynsamlega leið til að koma honum til varnar. Ljóst má vera að Árna hefur orðið töluvert á í messunni þó ekki liggi endanlega fyrir hvort hann hefur gerst sekur um tilraun til fjárdráttar eða eingöngu klúður, klaufaskap og dómgreindarbrest á óvenjulegu stigi. Og hann hefur einnig, um stund að minnsta kosti, reynt að breiða yfir hvernig komið var málum. Svo það er ekki að undra að fólk hneykslist. Og sumir telja ekki nóg að gert með opinberri niðurlægingu þingmannsins og því að augljóst má vera að pólitískur ferill hans er runninn með öllu út í sandinn; þeir vilja einnig að hann láti af þingmennsku ekki seinna en strax.

En þeir sem fagna því að Árni Johnsen hafi gefið landsmönnum sameiginlega réttmæta ástæðu til hneykslunar, þeir mega vera þakklátir fyrir ýmislegt. Tökum til dæmis kantsteinana sem Árni pantaði vegna þjóðleikhússins en enduðu síðar heima hjá honum. Þar er eitt helsta hneykslunarefnið eins og vænta má. En ef Árni hefði nú ekki farið með þá heim til sín? Ef hann hefði til dæmis sent þá heim til svokallaðs Ingólfs Margeirssonar, svona í tilefni af afmæli hans, ja hvað þá? Ætli það hefði nýst eins vel til hneykslunar? Ætli það hefði orðið meira en „dómgreindarbrestur“? Ætli ungir kratar hefðu farið af stað með undirskriftasöfnun til að krefjast tafarlausrar afsagnar þingmannsins?

„Er nú Vefþjóðviljinn orðinn galinn?“ spyr kannski einhver. Já, það má spyrja sem svo, en þá væri hægt að spyrja á móti hvort menn hefðu með öllu gleymt áfenginu sem Jón Baldvin Hannibalsson, fjármálaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, sendi af örlæti sínu í afmælisboð áðurnefnds ritstjóra Alþýðublaðsins. Jón Baldvin endurgreiddi áfengið þegar upp komst og sagði tiltæki sitt vott um „siðferðisbrest“ en sagði hvorki af sér þingmennsku né ráðherradómi. Og Jón Baldvin þykir ansi fínn pappír í dag og margir sem sakna hans sárt úr pólitíkinni.

Nú má ekki skilja Vefþjóðviljann svo, að honum þyki hlutur Árna Johnsen betri þó aðrir kunni að hafa leikið sama leik. Árni verður að standa fyrir máli sínu hvort sem aðrir eru með allt niður um sig eða ekki. En margt hlýtur að rifjast upp fyrir þeim sem nú hlýða á ábúðarmikla menn tala af sannfæringarkrafti og óbilandi réttlætiskennd um Árna Johnsen og hvað honum beri að gera. Á þessari stundu veit enginn hvaða ákvörðun Árni tekur um framhald þingmennsku sinnar. En ef eitthvað má af sögunni ráða, þá sést að minnsta kosti hvað Árni gerði ef hann væri þingmaður þess flokks þar sem hæst er nú talað, Samfylkingarinnar. Þá sæti hann sem fastast.

Gísli S. Einarsson heitir maður og er alþingismaður og ólöggiltur skjalaþýðandi. Hann hefur mjög látið málefni Árna Johnsen til sín taka og segir að í sporum hans myndi hann óðar segja af sér. Og það sem meira væri, hann segir, að ef hann segði ekki af sér þegar í stað, „þá myndi formaður [hans]“ þvinga hann til afsagnar. Það er einmitt það. Össur Skarphéðinsson myndi bara berja í borðið. Þá kannski af sama krafti og hann hefur beitt sér í málefnum tveggja borgarfulltrúa R-listans sem enn í dag sitja fínir menn í bæði borgarstjórn og borgarráði, þrátt fyrir að hafa vanrækt skattskil sín árum saman? Eða af sama siðferðisstyrknum og þegar í ljós kom að Samfylkingin hafði sent út póst sinn á kostnað Alþingis? Og það var ekki eitt bréf, ekki tvö og ekki þrjú sem siðvæðingarflokkurinn lét Alþingi greiða fyrir. Nei þau voru nú bara átján þúsund. Einhverra hluta vegna hefur Samfylkingin ekki beitt sér af hörku fyrir afsögn borgarfulltrúanna. Og ekki heldur fyrir afsögn þingflokksins sem nýtti fé Alþingis undir póstinn. Þó skyldu menn ætla að öllu hægara væri að hlutast til um eigin afsögn en annarra. Já, „there are some spooky things going on in this matter“, eins og fyrrnefndur Gísli hefur stundum sagt.

Og hvað með þann merka mann, Steingrím Hermannsson? Varla þarf að rifja upp fyrir lesendum störf hans í Rannsóknarráði og meðferð á fjármunum þess. Engu að síður naut hann talsverðs trúnaðar og margir sem undu vel forystu hans. Meira að segja sá ágæti lagaprófessor, Eiríkur Tómasson, sem er mjög lítið ánægður með Árna Johnsen þessa dagana, var hann ekki aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar í dómsmálaráðuneytinu nokkrum árum eftir að farsælum störfum Steingríms hjá Rannsóknarráði lauk? Kannski hefur Eiríki þótt mikill munur, lagalegur eða siðferðislegur, á gerðum Steingríms þar og á gerðum Árna Johnsen nú. Nú og kannski hefur Eiríkur nauðað í Steingrími kvölds og morgna um tafarlausa afsögn og lögreglurannsókn vegna „grænbaunamálsins“. Hver veit?

En í huga margra eru það ekki kantsteinarnir sem skipta mestu máli. „Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um ósannindin“ segja margir, og ekki að ástæðulausu. Menn eiga að varast það að segja ósatt og ósannindi Árna hljóta að draga úr þeim trúnaði sem hann nýtur meðal kjósenda og sá trúnaður verður ekki endurreistur einn tveir og þrír. En þeir sem hneykslast á Árna fyrir ósannindi í umtöluðu útvarpsviðtali, ætli þeir séu ekki örugglega sjálfum sér samkvæmir? Ætli þeir fari ekki hjá sér í hvert sinn sem þeim er gert að rísa úr sætum í virðingarskyni við háttvirtan núverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins? Og vilji helst vera án þess sóma að forsetinn „heiðri þá með nærveru sinni“ eins og stundum er sagt í fréttatímum eins og ekkert sé sjálfsagðara?

„Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað“ sagði Megas að væri aðferð Morgunblaðsins til að drepa óþægilegum umræðuefnum á dreif. Einhverjum kann með sama hætti að þykja að allar upprifjanir á sambærilegum málum og þeim sem Árni Johnsen er nú krafinn svara um, hljóti að vera gerðar til þess að gera hlut hans sem bestan eða í von um að umræðan fari um víðan völl. Flestir sanngjarnir menn hljóta hins vegar að sjá, að nauðsynlegt er að skoða alvarleg mál í samhengi og að sambærileg mál eiga að fá sambærilega meðhöndlun. Árni Johnsen hefur vissulega lagt talsvert af mörkum til að fyrirgera trausti sínu meðal almennings en sama hafa fleiri gert. Þeir menn, sem nú eru vakandi og sofandi yfir málefnum Árna Johnsen, mættu jafnvel velta fyrir sér hvort þeir ættu einnig að beina sjónum sínum að öðrum mönnum og jafnvel sér nákomnari. Og fjölmiðlamenn, sem nú fara mikinn eins og gefur að skilja, þeir mættu jafnvel gefa sér svolitla stund til að rifja upp hvernig umfjöllun þeirra sjálfra hefur verið um ýmsa aðra höfðingja. Og ef þeim detta engir menn í hug þá mættu þeir til skiptis horfa til borgarráðs Reykjavíkur og svo til Bessastaða og þá kannski rynni upp fyrir þeim ljós.

Og að lokum: Árni Johnsen hugsar nú sín mál og á það við samvisku sína hvort hann lætur ekki aðeins af störfum sem formaður bygginganefndar Þjóðleikhússins heldur einnig sem þingmaður. Ef til vill þykir honum sem hann hafi þegar axlað meiri ábyrgð en margur í svipaðri stöðu með því segja sig úr byggingarnefndinni. Og vissulega á það við um þau tilvik sem rakin voru hér að ofan. Þar sátu allir sem fastast. En það er óvíst hvort afsögn úr byggingarnefndinni dugar Árna til að greina sig nægilega frá þeim hópi sem axlaði enga ábyrgð. Vilji hann greina sig enn frekar frá honum hlýtur hann að hugleiða hvort nóg sé að gert.