Eins og áður hefur verið bent á minnkar sífellt sá stuðningur sem verið hefur við þá harðlínustefnu sem fylgt er í baráttu við slæmar afleiðingar fíkniefnaneyslu. Þetta má glöggt sjá í Bandaríkjunum þar sem sumir þeirra sem eru og hafa verið áberandi í stjórnmálum eru farnir að tala um að lögleyfa að minnsta kosti veikari fíkniefnin. Þar hefur líka verið mikill stuðningur við notkun maríúana í lækningaskyni. Af Evrópuríkjum má nefna að í víða í Sviss geta menn neytt kannabisefna án þess að eiga á hættu að komast í kast við lögin og þekkt er að í Hollandi hafa reglur um þessi efni verið allt aðrar en í nágrannaríkjunum.
Nýjasta dæmið um breytt viðhorf til fíkniefnalöggjafarinnar er að Michael Portillo, sá maður sem í dag er líklegastur til að taka við af William Hague sem leiðtogi íhaldsmanna í Bretlandi, hefur hvatt til umræðu um lögleyfingu kannabisefna. Fleiri af leiðtogum íhaldsmanna hafa hvatt sér hljóðs um þetta mál að undanförnu. Þeir halda því meðal annars fram að stjórnmálamenn verði að sýna að þeir skilji óskir almennings um lögleyfingu, en samkvæmt nýlegri könnun eru 80% Breta hlynnt lögleyfingu kannabisefna.
Peter Lilley, fyrrum varaleiðtogi íhaldsmanna, hefur gefið út bækling um málið og segir hann að yfirvöld geti gefið út leyfi til þeirra sem vilja selja fólki kannabis. Þeir sem orðnir séu átján ára geti þá keypt efnin löglega og með því sé skorið á tengslin við undirheimana og sterkari efnin.
Margar bækur hafa verið gefnar út á síðustu árum um fíkniefnavandann og þá ekki síst þann vanda sem hlýst af núgildandi löggjöf, en í skjóli hennar hefur sprottið upp mikil skipulögð glæpastarfsemi, fangelsi hafa fyllst og mikið ofbeldi hefur tengst ólöglegu fíkniefnunum, bæði milli glæpaklíkna og einnig ofbeldi sem beinist gegn hinum almenna borgara. Þrátt fyrir þetta er fjarri lagi að tekist hafi að útrýma fíkniefnum úr samfélaginu og ef marka má verðlagningu þeirra hefur líklega aldrei verið auðveldara að verða sér úti um fíkniefni en um þessar mundir. Á þetta jafnt við í Bandaríkjunum og Evrópu þrátt fyrir að aldrei hafi baráttan við þá sem dreifa fíkniefnum verið harðari. Ein þeirra bóka sem fjallar um fíkniefnavandann er After Prohibition, en hún er greinasafn þar sem farið er vítt yfir sviðið og ýmis sjónarmið reifuð, bæði með og á móti lögleyfingu. Í formála bókarinnar segir Milton Friedman að hver sem skoðun lesandans kunni að vera á þessu málefni geti hann varla annað en viðurkennt hversu miklum hörmungum samfélagið hefur orðið fyrir vegna þess að fólki er bannað að neyta nokkurra efna sem nefnd hafa verið „ólögleg fíkniefni“.