Mánudagur 9. júlí 2001

190. tbl. 5. árg.

Atli Harðarson heimspekingur rabbar um atvinnufrelsi í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi. Í upphafi rabbsins spyr hann þeirrar einföldu spurningar hvernig það væri að leyfa öllum að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Það hljómar svo sem nógu sjálfsagt að allir eigi að mega starfa við það sem þeir vilja, en ýmsir sérhagsmunir koma í veg fyrir að svo sé. Atli bendir til dæmis á að til að láta gera við bilaða vatnslögn verði að fá að minnsta kosti tvo iðnaðarmenn, því píparinn má ekki vinna við múrverk og múrarinn ekki við pípulögn. Eins og Atli nefnir einnig eru engir sérstakir almennir hagsmunir sem krefjast þess að þetta sé með þessum hætti, slíkar reglur eru yfirleitt settar til að verja sérstaka stéttarhagsmuni. Múrarar, píparar og fleiri vilja sitja einir að sínu á meðan hagsmunir almennings felast auðvitað í að fá að velja þann mann til verksins sem getur unnið best starf fyrir minnst fé hverju sinni.

Ábending Atla um að í tölvugeiranum séu ekki slíkar takmarkanir en þar hafi vöxtur einmitt verið hvað mestur, er einnig athyglisverð. „Öll saga þessarar tækni er til vitnis um þann sköpunarmátt sem losnar úr læðingi þegar allir mega spreyta sig á að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd hversu vitlausar sem þær kunna að vera samkvæmt einhverjum hefðbundnum mælikvörðum,“ segir hann. Og sem dæmi tekur hann að veraldarvefurinn væri fátæklegur ef útskrifaðir kerfisfræðingar mættu einir taka að sér vefsíðugerð.

Við þessar pælingar um kosti atvinnufrelsis og óþarfar hömlur sem lagðar hafa verið á það má nefna nýlegar breytingar í tóbaksvarnarlögum. Með þeim er lagt bann við því að fólk undir 18 ára aldri afgreiði tóbak, en um leið er verið að gera stórum hluta þeirra landsmanna sem hingað til hafa stundað afgreiðslustörf ókleift að halda því áfram. Starfsmaður söluturns eða afgreiðslumaður á kassa í stórmarkaði verður að geta afgreitt eina af algengustu söluvörum þessara verslana. Þessar reglur munu ekki draga úr reykingum en hafa aðeins þau áhrif að hrekja fólk úr störfum sínum. Samræmist það hugmyndum manna um atvinnufrelsi? Svo kann að vera ef menn eru fullir ofstopa, en að öðrum kosti eru varla nokkur svo blindaður að hann sjái ekki hvers kyns ólög hér er um að ræða.