Mánudagur 2. júlí 2001

183. tbl. 5. árg.
„Mestöll mannréttindaumræða hér snýst orðið um eitthvað afbrigðilegt. Það styttist í að einhverjir sérhópar kúski okkur hina.“

Sigurður Líndal
Sigurður Líndal

Sjötugur er í dag, maður nokkur sem sennilega verður að flokka með þeim óvenjulegri. En þó að prófessor Sigurður Líndal sé á ýmsan hátt hinn sérkennilegasti maður, þá er ekki eins og hann hafi ekki margt athyglisvert fram að færa eða komi ekki oft auga á þann kjarna máls sem háværari menn láta sig gjarnan litlu skipta. Nú má vera að einhverjum þyki sem í þessum orðum muni Vefþjóðviljinn hitta sjálfan sig fyrir, því víst er um það að ýmsum skoðunum Sigurðar er Vefþjóðviljinn með öllu ósamþykkur. En á þessum degi má láta liggja milli hluta hver hafi þar réttara fyrir sér. Þess í stað þykir Vefþjóðviljanum við hæfi að rifja upp litla ritgerð sem prófessor Sigurður skrifaði fyrir hálfum öðrum áratug og nefnist Reglugerðarríkið.

Ritgerð Sigurðar birtist árið 1986 í tímaritinu Frelsinu en fimmtán árum síðar er hún enn athyglisverð og holl lesning. Fjallaði Sigurður þar meðal annars um það hvaða takmörk séu fyrir því að ná stjórnmálamarkmiðum með lögum og reglugerðum og hvaða áhrif lög og reglugerðir geti haft á líf borgaranna. Ekki eru tök á því hér að reifa grein Sigurðar svo ýtarlega sem vert er, en þess í stað verður að stikla á stóru. Sigurði þótti sem sett lög í landinu væru mörg hver óskýr og illa framkvæmanleg, þau mótuðust af óskhyggju og væri oft augljóst að löggjöfinni væri ætlað að koma „einhverju til leiðar sem ekki er unnt að gera með lögum, svo sem að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni eða „rækja umgengni og samneyti“ við þau eins og foreldrum er boðið í barnalögum, [eða] að nám skuli tengjast þroskandi störfum eins og mælt er í grunnskólalögum…“

Sigurður sagði, að slík lög og önnur sem hann tiltók, væru ekki aðeins meinleysislegt hjal heldur „hafi miklu frekar þá verkan að minna á óleystan vanda og ýfi þannig upp ágreining og illindi í stað þess að liðka fyrir lausn mála. Lögin eru þá ekki lengur landsfólkinu til heilla, heldur þjóðfélagsböl.“ Og Sigurður spurði:

En hvað veldur því að slík óregla hefur komizt á löggjafarmál þjóðarinnar? Hér sem fyrr veldur vöxtur opinberra umsvifa mestu. Sífellt eru fleiri svið mannlífsins lögð undir vald laganna. Þeim virðist ekki eingöngu ætlað að stýra lífi manna út á við heldur og einkalífi – og þangað er æ lengra seilzt. Ljóst er að vandkvæðin á að orða lagareglur skilmerkilega og fullnægja öðrum kröfum sem gera verður til þeirra, vaxa eftir því sem þær verða dægurbundnari og taka til fleiri atriða.

Sama vanda veldur kjósendaótti stjórnmálamanna sem birtist m.a. í því að taka undir málstað sem flestra, ekki sízt þann sem kalla má tízkubundinn. Hér úir og grúir af samtökum hagsmunaaðila og áhugamanna sem bera tiltekin afmörkuð málefni fyrir brjósti; má nefna hagsmuni einstakra atvinnustétta, þar á meðal atvinnurekenda, kvenna, ungs fólks, sjúklinga með tiltekna sjúkdóma og húsbyggjenda eða þá umhverfisvernd og menningargæzlu.

Enginn sannur baráttumaður efast um málstað sinn og skoðar hann sjaldnast í samhengi við málstað eða hagsmuni annarra. Stjórnmálamaðurinn sem vill ekki styggja baráttumennina reynir að draga taum allra. Þegar hann sér að ósamrýmanlegir hagsmunir rekast á hefur hann ekki aðra leið til undankomu en haga lagasetningu þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Og það verður ekki gert öðru vísi en með loðmullulegu orðalagi, óákveðnum stefnuyfirlýsingum og almennum hugleiðingum.