Eins og sagt var í síðasta helgarsproki eru nú liðnar tvær aldir frá fæðingu franska rithöfundarins Frédéric Bastiat. Og eins og þá var boðað, hefur Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, því í dag gefið út á íslensku þekktustu bók Bastiat, Lögin. Í henni fjallar Bastiat um hlutverk laga í þjóðfélaginu og hvort réttlæti hafi verið til áður en lög voru sett. Eiga lögin að hindra óréttlæti eða eiga þau að taka að sér að útdeila réttlæti? Er hlutverk laga eingöngu það að koma í veg fyrir að einn brjóti á öðrum eða eiga þau að taka verðmæti frá einum og færa öðrum? Geta lögin orðið farvegur óréttlætis, framið sjálf það ranglæti sem þeim var ætlað að refsa fyrir?
Eins og menn vita hefur löggjafinn fært sig upp á skaftið næstum linnulaust undanfarna áratugi og vandfundið það svið þar sem stjórnlyndir menn hafa ekki talið nauðsynlegt að setja „heildarlög“, „hegðunarreglur“, „lágmarkskröfur“ eða önnur fyrirnæli sem draga úr stjórn borgarans á eigin lífi en auka völd og áhrif löggjafans að sama skapi. Og efnahagslegar ákvarðanir löggjafans hafa ekki verið teknar af meiri hógværð. Enn er sköttum beitt miskunnarlaust til að færa verðmæti frá einum til annars og flest ríki beita tollum gengdarlaust til að gera sjálf sig fátækari og hindra frjálsa verslun. Og á sama tíma og löggjafinn treystir sér ekki til að vernda þá sem verða fyrir harðjöxlum í verkalýðsrekendastétt sem beita valdi til að hafa hemil á þeim sem ekki vilja lúta valdi þeirra, eru lög notuð til að setja arðbærum fyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar. Má þar sérstaklega nefna svo kölluð samkeppnislög sem víða hafa verið sett til höfuðs frjálsum viðskiptum. Er slík lagasetning eðlileg eða hefur löggjafinn þar farið langt út fyrir þau mörk sem telja má réttlát?
Frédéric Bastiat (1801 – 1850) var franskur þingmaður og hagfræðingur og mælskumaður og afburða rithöfundur. Meðal annarra verka hans eru Það sem maður sér og ekki sér (Ce qu’on voit et ce qu’on ne voit pas) sem inniheldur hina einstöku dæmisögu Brotnu rúðuna og Villuspeki hagfræðinnar (Sophismes économiques) sem inniheldur Bænaskrána frá ljósaiðnaðinum.
Þó hálf önnur öld sé liðin frá því Frédéric Bastiat setti Lögin (La Loi) saman, á þessi fræga bók áríðandi erindi við nútímalesendur. Hægt er að panta hana til kaups með því að smella á mynd af henni hér á síðunni og fá hana senda heim að bragði. Bókin er kilja, 73 blaðsíður að stærð.