Í fyrradag var vikið að Hróa hetti í grein í Morgunblaðinu og hann sagður hafa barist gegn þeim ríku og honum væri illa brugðið ef hann læsi nýlega umfjöllun breska tímaritsins The Economist um ójafnar tekjur. Þetta er ekki alveg rétt hjá greinarhöfundi því Hrói höttur var ekki síst upptekinn af því að „stela“ frá ríkinu þ.e. endurheimta skattfé úr hirslum fógetans í Nottingham og skila því til skattgreiðenda.
En það er annað sem ástæða er til að staldra við í þessari grein eftir Kristján Arngrímsson en missagnir hans um starfsemi Hróa hattar. Kristján á nefnilega bágt með að trúa því að ójöfnuður, þ.e. ójafnar tekjur séu góðar eða að minnsta kosti ekki slæmar. Þykir honum lítið til koma um röksemdarfærslu tímaritsins The Economist um að ójöfn tekjuskipting sé síður en svo slæm. Kristján er raunar ekki sá fyrsti sem hefur áhyggjur af þessu og örugglega ekki hinn síðasti.
Ludwig von Mises gerði tilraun til að útskýra það í grein fyrir tæpri hálfri öld að tekjujöfnun hins opinbera leiðir til ófarnaðar. „Að mati lýðskrumara er ójöfn tekjuskipting verri en orð fá lýst. Réttlætið felst að þeirra mati í algjörlega jafnri tekjuskiptingu. Þess vegna þykir þeim eðlilegt að gera eignir hinna efnameiri upptækar og færa þeim sem eiga minna. Þeir sem boða þessa stefnu taka ekkert tillit til þess að hún kunni að leiða til þess að samanlagður auður manna minnki. Jafnvel þótt svo væri ekki þá ýkja menn það hve mikið má bæta hag þeirra sem minnst hafa með þessari aðferð. Neysla ríka fólksins er aðeins brot af heildarneyslunni. Ríka fólkið eyðir hlutfallslega minna af tekjum sínum en aðrir. Stærri hluti tekna þeirra fer í sparnað eða fjárfestingar. Þess vegna er þetta fólk ríkt. Ef þessi sparnaður sem ríka fólkið notar til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum er tekinn og notaður í útgjöld hins opinbera hægir á hagvexti. Þannig hægir á efnahagslegum framförum, tækniframförum og lífskjör batna hægar en ella.“
The Economist kemst að svipaðri niðurstöðu í umfjöllun sinni og hvetur til umburðarlyndis gagnvart auðmönnum þ.e. að skattlagningu sé stillt í hóf. Tímaritið telur, eins og Mises fyrir hálfri öld, að það muni skila sér í bættum hag allra.
Í fyrrnefndri umfjöllun The Economist um tekjuskiptingu er birt súlurit sem sýnir framlög til góðgerðamála í nokkrum löndum. Þar kemur fram að slík framlög sem hlutfall af landsframleiðslu eru rúmt 1,0% í Bandaríkjunum, rúmlega 0,60% í Bretlandi, tæp 0,30% í Frakklandi og um 0,15% í Þýskalandi og Japan. Bandaríkjamenn gefa því um sexfalt meira af tekjum sínum til góðgerðamála en Þjóðverjar. Ef til vill skýrist þessi mikli munur á Bandaríkjamönnum og öðrum þjóðum á því að fógetar af Nottingham hafa verið færri í bandarískum stjórnmálum en evrópskum. Bandaríkjamenn halda heldur stærri hluta af sjálfsaflafé sínu en Evrópumenn og hafa því betra færi á að láta gott af sér leiða. Evrópumenn hafa minna svigrúm enda þurfa þeir að gjalda hertogum sínum háa skatta, í nafni tekjujöfnunar.