Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær var rætt við eiganda nektardansstaðar í Reykjavík og tvær íslenskar dansmeyjar. Eins og menn vita eru allir Karlar Sigurbjörnssynir og Kolbrúnar Halldórsdætur landsins búin að úthrópa starfsfólk nektardansstaða sem melludólga og mellur eða þræla og þrælahaldara.
Þessir gestir í Kastljósi neituðu því allir að vændi væri stundað á nektardansstaðnum sem þeir starfa á enda hefur ekkert komið fram um annað nema sóðatalið í siðapostulunum. Eigandinn og dansmeyjarnar voru sammála um að þessi umræða hinna sjálfskipuðu siðapostula gæfi mönnum einungis ranghugmyndir um hvers væri að vænta á nektardansstöðunum. Þegar þingmenn og prestlingar halda því statt og stöðugt fram að menn geti fengið hvað sem er á dansstöðunum er ekki við öðru að búast að einhverjir taki það trúanlega.
Þegar þeir sem trúa þessu mæta svo á nektarstaðina er ekki von á öðru en að þeir biðji um það sem biskupinn og þingmennirnir hafa lofað þeim.
Sir Malcolm Rifkind fyrrum varnarmálaráðherra Bretlands náði ekki kjöri á þing á nýjan leik í kjördæmi sínu Edinburgh Pentlands í gær en hann féll af þingi í síðustu kosningum. Áður en úrslitin í Edinburgh Pentlands lágu fyrir sagði Rifkind í sjónvarpsviðtali að kjósendur hefðu kosið með fótunum að þessu sinni og ekki mætt á kjörstað en kjörsókn var sú minnsta frá 1918. Rifkind sagði reyndar að menn hefðu öllu heldur kosið með afturendanum að þessu sinni og setið heima. Eins og kom í ljós síðar um nóttina fékk Rifkind sjálfur of mörg afturendaatkvæði til að ná kjöri.
Stjórnmálamenn virðast margir trúa því að fólk mæti almennt á kjörstað til að lýsa yfir ánægju með störf þeirra – en ekki til að greiða atkvæði gegn þeim versta. Þegar kjósendur mæti hins vegar ekki séu þeir óánægðir. Eins og minnst var á hér í VÞ í gær þarf lítil þátttaka ekki að þýða annað en það að dregið hafi úr afskiptum pólitíkusa af lífi fólks eða vægi afskiptana í lífi fólks hafi a.m.k. minnkað. Breski Verkamannaflokkurinn hefur í raun losað sig við alla stefnu sína frá níunda áratugnum og ýmsir telja hann lengra til hægri en Íhaldsflokkurinn var við upphaf stjórnartíðar Margrétar Thatcher. Arthur Scargill fékk 2,4% atkvæða í kjördæmi sínu í gær. Það er því ekki óvarlegt að ætla að kjósendum þyki mörgum hverjum – með réttu eða röngu – lítil ástæða til að ómaka sig á því að kjósa.