Kosningabaráttan í Bretlandi undanfarna daga hefur ekki síður snúist um að fá fólk til að kjósa heldur en að kjósa nokkuð ákveðið. Mikill áróður hefur verið rekinn fyrir því að menn mæti á kjörstað enda eru uppi kenningar um að kjörsókn verði sú minnsta í 80 ár. Verkamannaflokkurinn hvatti ungt fólk til dæmis með sjónvarpauglýsingum nú í vikunni til að nýta sér atkvæðisréttinn. Auglýsingin sýndi vinsæla leikkonu, Terri Dwyer að nafni, mæta á kjörstað og kjósa Verkamannaflokkinn og uppskera þakkir landsmanna fyrir. Það hefur hins vegar aðeins dregið úr áhrifamætti auglýsingarinnar að leikkonan sjálf sagði síðar í viðtali að hún myndi nú reyndar ekki kjósa.
Þá bjó Verkamannaflokkurinn til aðra auglýsingu þar sem hinn góðkunni næturgali, Geri Halliwell, hvatti fólk eindregið til að mæta á kjörstað og átti vart nægilega stór orð til að lýsa mikilvægi þess. Það hefur svo síðar komið fram að Verkamannaflokkurinn verður að vera án atkvæðis Halliwells í dag því hún mun ekki kjósa.
Það er ekki eins og þetta sé einleikið með Verkamannaflokkinn breska. Jafnvel almennar hvatningar um kosningaþátttöku reynast frekar vera umbúðir en innihald, frekar skrum en raunveruleiki. Auðvitað má segja, að þeir sem koma fram í auglýsingum tali ekki alltaf frá eigin brjósti – því varla ætlast menn til þess að Egill Ólafsson þeytist um á Toyotu yaris, Pálmi Gestsson horfi á allar útsendingar frá Nissan-deildinni í handbolta og Arnar Jónsson kaupi allar nauðsynjavörur í Golfverslun Nevada Bob. En alvaran – eða alvöruleysið – á bak við hinar hástemmdu og persónulegu hvatningarauglýsingar breska Verkamannaflokksins er engu að síður umhugsunarverð og í ætt við annað á þeim bæ.
Og hann er líka umhugsunarverður þessi sífelldi söngur um að allir eigi endilega „að nýta atkvæðisréttinn“. Mikilvægi kosningaréttarins felst í því að borgarinn geti nýtt sér hann. Út af fyrir sig skiptir minna máli hvort borgarinn ákveður að nýta sér rétt sinn við öll möguleg tækifæri eða ekki. Í Bandaríkjunum hefur, svo dæmi sé tekið, yfirleitt verið minni kosningaþátttaka en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum. Það hefur hins vegar ekki leitt til þess að bandarískir stjórnmálamenn hafi að jafnaði gengið nær borgurunum en kollegar þeirra í öðrum löndum hafa gert. Lítil þátttaka í kosningum kann að vera til marks um það að enginn frambjóðenda höfði til kjósenda eða að kjósendur séu svo yfir sig hrifnir af öllum frambjóðendum að þeim þyki engu skipta hver kemst að. En lítil þátttaka kann einnig að merkja það, að í því landi hafi stjórnmálamenn kunnað sér svolítið hóf í afskiptasemi af borgurunum; að valdhafarnir hafi ekki yfirþyrmandi áhrif á daglegt líf fólks.
Það er svo annað mál að svo lengi sem nokkur munur er á frambjóðendum þá má ætla að einn sé skárri en annar. Og þeir sem ekki eru slíkir heildarhyggjumenn að fullyrða að stjórnmálamenn séu „allir eins“, þeir munu jafnan telja ómaksins virði að mæta á kjörstað, ef ekki til að kjósa þann skásta, þá til að kjósa á móti þeim versta.