Í Verkefnaskrá Samfylkingarinnar sem samin var sérstaklega fyrir þingkosningar 1999 sagði: „Því hljótum við að stefna að því að gerast fullgildir aðilar að Kyoto-bókuninni um losun gróðurhúsalofttegunda. Það kallar á að dregið verði skipulega úr útblæstri skaðlegra lofttegunda t.d. í samgöngum og sjávarútvegi,…“
Í kafla í verkefnaskránni sem bar yfirskriftina „Traust undirstaða – ábyrg fjármálastjórn“ sagði svo einnig: „Sett verði heildarlöggjöf um umhverfis- og mengunarskatta. Meðal þeirra er almennur koltvíoxíðsskattur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, gjöld vegna álags á náttúru og umhverfi og skattalegar ívilnanir til að draga úr mengun og bæta umhverfið.“
Tveir þriðju útblásturs gróðurhúsalofttegunda á Íslandi koma frá samgöngum og fiskiskipum. Það blasir því við að almennur koltvíoxíðskattur hlýtur að leggjast á eldsneyti fyrir samgöngur og fiskiskip. Í ljósi þess hvernig eldsneytisverð hefur þróast að undanförnu mættu fjölmiðlamenn kanna það hjá forystusveit Samfylkingarinnar hvort enn stendur til að leggja aukna skatta á eldsneyti.
Hvað vill Samfylkingin hækka bensínið á heimilisbílinn mikið með koltvíoxíðskatti? Hvað vill fylkingin hækka olíulítrann á báta og vörubíla mikið? Um 10 krónur á lítrann, 20 krónur, 30 krónur, 40 krónur?
Ef fylkingin hefur fallið frá þessu stefnumáli sínu vegna hærra eldsneytisverðs á heimsmarkaði, má spyrja hvort hún ætlar að nota tækifærið þegar eldsneyti lækkar á nýjan leik á heimsmarkaði til að leggja þennan skatt sinn á?
Og meira um orkumál. Í seinna Morgunblaðinu sem barst áskrifendum í gær var forvitnileg grein eftir Björn Kristinsson prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands um álefnarafala. „Þekkt aðferð til þess að breyta efnaorku í raforku er notkun efnarafala. Þar gengur orkugjafinn, vetni eða núna ál, í efnasamband við súrefni án bruna. Í stað þess að rafeindir í efnaferlinu valdi skammhlaupi og hita eru rafeindirnar leiddar úr efnarafalanum um ytri straumrás þar sem orkan er nýtt.“, segir Björn í grein sinni.
Hér lýsir Björn því enn einum kostinum sem stendur til boða sem orkuberi í farartæki og önnur tæki sem ekki geta látlaust verið tengd í rafmagnstengil. Vetni er annar kostur sem bílaframleiðendur hafa verið að kanna en geymsla þess létta frumefnis er enn sem komið er vandkvæðum bundin eins og Björn rekur í grein sinni. Hvorki ál- né vetnisefnarafalar leysa þó orkuþörfina sjálfa. Bæði vetni og ál þarf að framleiða með orkufrekum aðferðum áður en hægt er að nota efnin á efnarafala. Hvorki ál né vetni eru því orkugjafar sem leysa orkuþörf mannkyns en þau geta nýst til að geyma orkuna eða flytja hana. Gas, olía, kol, kjarnorka, fallvötn og vindur eru hins vegar dæmi um orkugjafa sem nota má til að framleiða álið og vetnið á efnarafala. Það þarf því að virkja, nýta kjarnorku, brenna jarðefnaeldsneyti eða reisa vindmyllur til að framleiða álið og vetnið á rafalana. Um 90% af orkuþörf jarðarbúa í dag er annað með bruna jarðefnaeldsneytis og það mun ekki breytast við aukna notkun efnarafala. Ef efnarafalar verða framtíðin í fararækjum færist bruni jarðefnaeldsneytisins aðeins úr farartækjunum sjálfum og í orkuver sem framleiða orkuna fyrir framleiðslu áls, vetnis eða annarra efna sem menn kjósa að nota á efnarafalinn. Mengunin frá bruna jarðefnaeldsneytisins kæmi því ekki frá farartækjunum sjálfum heldur orkuverunum. Bílaframleiðendur eyða miklu fé í rannsóknir á þessum kostum og íslenska ríkið hefur af rausnarskap sínum fyrir hönd skattgreiðenda ákveðið að styrkja einn þeirra, risafyrirtækið Daimler-Chrylser, um tugi milljóna króna til að skoða nýtingu vetnis.
Þessir nýju kostir keppa að sjálfsögðu ekki aðeins innbyrðis heldur einnig við þá sem fyrir eru. Miklar framfarir hafa einnig orðið á hefðbundnum sprengihreyflum í farartækjum. Eldsneyti er hreinna en áður og betur nýtt í nýjum vélum. Í síðustu viku bárust af því fréttir að þróuð hefði verið einföld tækni til að skilja þyngstu hluta bensíns frá við kaldræsingu bifreiða með þeim árangri að mengun frá þeim minnkar verulega. Við kaldræsingu er bruni eldsneytis ófullkominn og mengun mun meiri en þegar vél hefur náð eðlilegum vinnsluhita.
Nú eru tvær tegundir svonnefndra blendinga í notkun hér á landi. Í annarri þeirra er raforku safnað á meðan bifreiðin gengur fyrir hefðbundnu eldsneyti. Raforkan er svo nýtt til að knýja bílinn við hentugar aðstæður. Þannig er dregið mjög úr eldsneytisnotkun. Hér á landi og víða um heim eru svo hreinir rafbílar í notkun en þeir eru hlaðnir beint með rafmagni í stað þess að nota orkubera á borð við vetni eða ál.
Eins og þessi upptalning ber með sér er mikil gerjun í þessum málum. Nú er bara að vona – íslenskra álversandstæðinga vegna – að ál verði ekki orkuberi framtíðar í farartækjum.