Nokkuð hefur mætt á Mæðrastyrksnefnd síðustu daga vegna utanferðar nokkurra nefndarkvenna. Nefndin hefur fram til þessa notið mikils velvilja í þjóðfélaginu – ekki síst vegna hins óeigingjarna starfs sem nefndarkonur hafa innt af hendi í gegnum tíðina. Án efa mun nefndin leggja allt kapp á að hafa skýrar reglur um umbun nefndarkvenna í framtíðinni svo gagnrýni af þessu tagi skaði ekki starf hennar. Starf góðgerðarfélaga á borð við Mæðrastyrksnefnd byggist á frjálsum framlögum. Þeim sem líka ekki starfshættirnir geta látið af stuðningi eða beint honum annað. Þetta er afar mikilvægt aðhald fyrir góðgerðarfélög og ein helsta ástæða þess að frjáls félagasamtök eiga fremur að sjá um velferðarmál en hið opinbera.
Velferðarkerfi hins opinbera er fjármagnað með nauðungargjöldum. Líki mönnum ekki hvernig fé þeirra er varið geta menn ekki hætt greiðslu. Það er raunar heldur ekki hægt að umbuna mönnum sem standa vel að verki. Til dæmis geta menn ekki hætt að styrkja svonefnt húsmæðraorlof þótt öllum sé ljóst að engin þörf er fyrir stuðning skattgreiðenda við ferðalög nokkur hundruð kvenna á hverju ári innanlands og utan. Hinn almenni maður sem greiðir skatta til velferðarkerfisins getur heldur ekki ákveðið að láta framlag sitt renna til þeirra sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. Hann verður hins vegar að sæta því að ákveðnir stjórnmálamenn – andsetnir þrýstihópum – taki af honum fé til að færa þeim sem betur eru staddir. Eða, svo dæmi sé tekið, dettur kannski einhverjum – öðrum en Geir H. Haarde – í hug að það sé mikil sanngirni í því að skattar venjulegs launamanns verði þyngdir stórlega til þess að hægt sé að borga hátekjumanni stórfé fyrir að fara í fæðingarorlof á kostnað ríkisins?