Mánudagur 28. maí 2001

148. tbl. 5. árg.

Á hverju vori undanfarin ár hefur tíðkast að þeir sem hafa ekki burði til að gera efnislegar athugasemdir við málatilbúnað þingmanna froðufelli yfir „löngu sumarfríi“ þeirra. „Þingmenn fá lengra frí en þorri almennings“, heyrist kjökrað á hverju ári við þingslit og mun vafalaust einnig heyrast þetta vorið.

Þingið kemur vissulega ekki saman næstu mánuðina. En segir það eitthvað um hve vel þingmenn sinna starfi sínu? Sú var tíð að Alþingi kom saman annað hvert ár, sex til átta vikur í senn. Þingið situr nú lengur og er fjölmennara en nokkru sinni fyrr. Ekki fer neinum sögum af því löggjöf sé vandaðri nú en áður þrátt fyrir fleiri þingmenn og meiri setur. Ef það væri tilfellið myndu menn sjálfsagt skipuleggja fjölmennar vaktir í þingsölum allan sólarhringinn árið um kring svo ekki félli úr mínúta við lagafæribandið. Þeir eru hins vegar einnig til sem óska þess heitast að þingmönnum fækki og þeir komi sjaldnar og skemur saman en nú. Og þeir hafa ýmislegt fyrir sér í því, annað en að fjölmenn þaulseta skili í engu betri löggjöf.

Það er því miður tilhneiging til þess að mæla störf einstakra þingmanna í eðlisfræðilegum einingum; hversu margar mínútur kjöftuðu þeir í ræðustóli og hve mörg mál fluttu þeir. Fjölmiðlamenn kunna að eiga nokkra sök á þessu þar sem þeir hafa meira gagn af gapuxunum en hinum. Færri virðast kunna að meta það við þingmenn ef þeir kunna sér hóf og gera sér grein fyrir því að ef til vill er til fólk úti í bæ sem vill leysa sín mál í friði og án allra afskipta þingmanna. Fleiri þingmenn mættu átta sig á því að það eru til viðfangsefni í þjóðfélaginu sem krefjast hvorki þingsályktunartillögu, fyrirspurnar til ráðherra, lagafrumvarps né utandagskrárumræðu. Slíkir stjórnmálamenn mættu vera fleiri á þingi eða bara sjálfumglöðu kjaftaskarnir færri. Þá hefði ef til vill verið von til þess að nokkrum árum eftir að pólitíkusar hentu milljörðum króna í laxeldi kæmi ekki fram tillaga í þinginu um að ríkið helli sér í þorskeldi.

Einhvern tímann var sagt að Rutherford B. Hayes væri besti forseti Bandaríkjanna þar sem enginn man eftir honum. Þetta er ekki vitlausari kenning en hver önnur um ágæti stjórnmálamanna og þegar ferill Hayes er skoðaður virðist hann hafa verið farsæll að mörgu leyti. Að minnsta kosti hljómar þessi kenning betur en tímatakan og málatalningin, að ekki sé minnst á lýðskrumið um sumarfrí þingmanna. Áhugamenn um spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum muna þó sennilega nafn Hayes en hann var kjörinn nítjándi forseti Bandaríkjanna með minnihluta atkvæða en fékk meirihluta kjörmanna eftir margra mánaða þref um niðurstöðuna í nokkrum ríkjum, m.a. Flórída.