Helgarsprokið 27. maí 2001

147. tbl. 5. árg.

Án efa hefur einhver verið svo bláeygur að halda að gildandi lög um tóbaksvarnir gengju svo nærri tjáningarfrelsinu að þingmenn hættu sér ekki lengra og bættu jafnvel ráð sitt við tækifæri. Í gildandi lögum segir m.a. um bann við tóbaksauglýsingum að bönnuð sé „hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir nema ljóst sé að hún miði beinlínis að því að koma á framfæri upplýsingum sem draga úr skaðsemi tóbaksneyslu“. Hnykkt er á þessu banni – eða öllu heldur fyrirmælum um það hvað menn mega segja um tóbak – í nýju lögunum sem taka gildi í ágúst. Sem fyrr er þó fjölmiðlum með aðsetur erlendis heimilt að auglýsa tóbak hér og selja hvaða Íslendingi sem er áskrift. Íslensk börn (þ.e. 17 ára og yngri samkvæmt lögum) geta til dæmis gerst áskrifendur að tímaritinu Cigar. Í Cigar er ekki aðeins auglýst tóbak heldur oft á tíðum fjallað lofsamlega um gæði einstakra tegunda.

„En hvað er það sem kallar á svo harkalega atlögu að málfrelsi, atvinnufrelsi, félagafrelsi og eignarrétti? Eru reykingar að aukast verulega? Veit hinn almenni maður ekki að það er óhollt að draga reykinn frá brennandi tóbaki ofan í sig?“

En það er vegið að fleiru en tjáningarfrelsinu í nýju tóbaksvarnarlögunum. Eignaréttur húseigenda er einnig skertur. Fyrirtækjaeigendum er almennt bannað að leyfa reykingar í húsnæði sínu. Félög mega það ekki heldur þótt markmið sumra félaga sé einmitt að halda skemmtanir þar sem menn geta drukkið og reykt um stund. Er ekki í raun verið að banna félög af þessu tagi? Veitingahúsaeigendum eru sett ýmis skilyrði sem sum eru reyndar þannig að engin leið er að framfylgja þeim. Þá eru tóbaksreykingar „bannaðar í öllu húsrými í sameign fjöleignarhúsa“. Eigendur tvíbýlishúss mega ekki sammælast um að reykja megi í sameign hússins þótt allir íbúar þess reyki. Flest er þetta að sjálfsögðu tóm sýndarmennska enda engin leið að fylgast með því að farið sé eftir þessum fyrirmælum.

Í lögunum er einnig ákvæði um að yngri en 18 ára megi ekki afgreiða tóbak yfir búðarborð. Í raun er verið að banna fólki undir 18 ára að vinna fyrir sér með afgreiðslustörfum. Það er með öðrum orðum búið að skerða atvinnufrelsi ungmenna. Verslunum verður einnig skylt að hafa tóbakið þannig að það sé „ekki sýnilegt viðskiptavinum“. Í nýju lögunum segir einnig: „Óheimilt er að setja á markað hér á landi tóbak undir vörumerkjum sem eru þekkt sem eða notuð sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu.“ Í raun er verið að banna nokkrar tegundir á tóbaki sem ganga undir sama nafni og skór, föt og skartgripir. Ætli væri ekki réttast að flytja inn tóbak undir nafninu Ólög Alþingis.

Nýju ólögin bera öll merki þess að þeir sem sömdu þau vilja banna tóbak en þora ekki að segja það beint. Þess í stað á að svæla reykingamenn út úr húsi sem víðast með ýmsum hundakúnstum, takmarka málfrelsi, skerða eignarrétt manna, gera rekstur veitingahúsa og verslana sem erfiðastan, banna fólki undir 18 ára að vinna í verslunum og á veitingahúsum, banna tóbakstegundir sem bera óæskileg heiti, ráðskast með sameiginleg rými á heimilum fólks og samkomur félaga sem þykja ekki stunda æskilegt félagstarf að mati hins opinbera eru bannaðar. Í flestum þessum tilvikum er ekki síður verið að skerða rétt þeirra sem reykja ekki en þeirra sem reykja.

En hvað er það sem kallar á svo harkalega atlögu að málfrelsi, atvinnufrelsi, félagafrelsi og eignarrétti? Eru reykingar að aukast verulega? Veit hinn almenni maður ekki að það er óhollt að draga reykinn frá brennandi tóbaki ofan í sig? Eru börn í vaxandi mæli að reykja frá sér heilsuna? Ekkert af þessu er til staðar. Á heimasíðu Rannsókna og greininga má finna upplýsingar um þróun reykinga í efsta bekk grunnskóla. Eins og sjá má hafa reykingar aldrei verið minni en einmitt nú. Yfir 40% reyktu daglega fyrir aldarfjórðungi en nú eru þeir um 15%. Það lætur nærri að álíka margir 10. bekkingar hafi prófað hass og þeir sem reykja daglega. Hassið er bannað með lögum en það dugar ekki til að halda þessum 15% frá því. Um 80% ungmennanna hafa bragðað áfengi sem fæst þó aðeins í sérstökum ríkisverslunum.

<!––> <!––>

Halda menn að takmarkanir á mannréttindum muni hafa eitthvað að segja um það hvort þessi jákvæða þróun heldur áfram og reykingamönnum heldur áfram að fækka eða ekki? Ætli þessi ofstopi verði ekki frekar til þess að reykingar aukist á nýjan leik?