Ef Össur Skarphéðinsson, Jón Sigurðsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Sighvatur Björgvinsson og Jón Baldvin Hannibalsson, ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar árin 1988 til 1991 og fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1991 til 1995, hefðu fengið vilja sínum framgengt hefðu verið byggð stór álver á Keilisnesi, við Eyjafjörð og Reyðarfjörð á stjórnarárum þeirra. Á þessum árum voru einnig uppi ýmsar aðrar hugmyndir um orkufrekan iðnað svo sem framleiðslu á magnesíum og sinki. Ef þessar hugmyndir hefðu orðið að veruleika væri ekki verið að þrasa um þau álver og þær virkjanir sem nú stendur til að byggja – það væri löngu búið að því.
Þessar framkvæmdir hefðu einnig þýtt að útblástur svonefndra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi hefði aukist verulega – svo ekki sé meira sagt. Það hefði því verið enn meiri fjarstæða en nú fyrir Íslendinga að staðfesta svonefnda Kyoto bókun um takmörkun gróðurhúsalofttegunda. Bókunin miðar við að útblástur aukist ekki frá árinu 1990 en öll áform þessara núverandi samfylkingarmanna hefðu komið fram í auknum útblæstri eftir árið 1990. Eins og menn vita runnu hins vegar öll áform kratanna um orkufrekan iðnað hér á landi út í sandinn þrátt fyrir ýmsar „viljayfirlýsingar“. Það kom svo í hlut næstu ríkisstjórna að hrinda stefnu kratanna í framkvæmd þótt enn sem komið er blikni þær framkvæmdir í samanburði við það sem kratarnir ætluðu sér.
Vingulsháttur er vissulega aðalsmerki forystu Samfylkingarinnar og í samræmi við það lögðu þingmenn hennar fram þingsályktunartillögu um að Íslendingar staðfesti – einir vestrænna þjóða – Kyoto bókunina.