Því er stundum haldið fram að svonefnd stórútgerð ráði öllu sem hún vill ráða. Engu að síður hefur útgerð smábáta tekist að ná til sín stærri og stærri aflahlutdeild á síðustu árum. Þessi aukna aflahlutdeild smábátanna hefur verið á kostnað stórútgerðarinnar. Ástæðan fyrir því að smábátunum hefur tekist þetta er að þeir hafa ekki verið á aflamarki eins og aðrar útgerðir heldur mátt veiða stjórnlaust – ekki haft neitt hámark á veiðum sínum. Með betri bátum og aukinni tækni hefur smábátaútgerðinni tekist að sækja sífellt meiri afla. Dæmi er um að með endurnýjun á bát og tækjum hafi mátt hundraðfalda afla. Nýi smábáturinn náði með öðrum orðum hundraðfalt meiri afla en sá gamli gerði á jafnlöngum tíma.
Í haust munu loks taka gildi lög sem koma í veg fyrir að einn útgerðarmaður geti hrifsað bótalaust af öðrum þegar smábátar verða settir á aflamark í ufsa, ýsu og steinbít. Munu allir útgerðarmenn sitja við sama borð. Talsmenn smábátaútgerðarinnar hafa að undanförnu minnt á það með auglýsingum og áróðri í fjölmiðlum hve hagkvæm útgerð smábáta er. Þeir þurfa því væntanlega engu að kvíða í keppni við stórútgerðina. Áróður þeirra hefur að vísu ekki alltaf verið trúverðugur eins og slagorðin „Smábátar – 3x meiri atvinna“ ber með sér. Það hljómar ekki beint trúverðugt að það sé gott að þrír menn vinni verk eins.