Mánudagur 21. maí 2001

141. tbl. 5. árg.

Stjórnir Austurríkis og Þýskalands eru andvígar því að banna auglýsingar á tóbaki en Evrópusambandið veit sem fyrr hvað er öllum aðildarríkjum sínum og öllum borgurum þeirra fyrir bestu og ætlar nú í annað sinn á stuttum tíma að beita sér fyrir banni á tóbaksauglýsingum í blöðum og á Netinu. Í fyrra sinnið var banninu hnekkt eftir kæru frá ríkisstjórn Þýskalands til dómstóls sambandsins sem kvað ekki hægt að byggja bannið á lögum um innri markað þess en leggja mætti á slíkt bann á heilbrigðisforsendum.

Hér á landi hefur bann við auglýsingum á áfengi og tóbaki verið í gildi um áratuga skeið. Hvarvetna má þó sjá slíkar auglýsingar, kynningar og umfjöllun um tóbak og áfengi. Hvort sem er í blöðum, sjónvarpi eða Netinu. Það eru aðeins flestir íslenskir fjölmiðlar sem verða af auglýsingatekjum vegna bannsins og íslenskir neytendur fá minni upplýsingar um nýjar vörur á markaði hér. Bannið er að sjálfsögðu réttlætt með því að það sé nauðsynlegt til að vernda heilsu almennings. Þeir einu sem njóta verndar bannsins eru þeir sem selja áfengi og tóbak sem hefur sterka stöðu á markaðnum. Þeir þurfa ekki að óttast að neytendur fái upplýsingar um aðrar tegundir eins og ef öllum væri frjálst að auglýsa. Tekjumissir íslenskra auglýsingamiðla, sem nemur líklega um 200 milljónum króna á ári, er þó ekki það versta við bannið. Það versta er að með banninu hafa menn stigið inn á hættulega braut. Þegar tjáningarfrelsið er skert með þessum hætti má velta því fyrir sér hvað verður bannað segja næst. Verður bannað að auglýsa fleira sem einhverjir 32 af 63 telja óhollt eða óæskilegt á einhverjum tíma? Hvað með feitan mat, nektarstaði, sælgæti, stefnumótalínur, samkomur á vegum homma og lesbía, jeppa, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð eða hvaðeina annað sem einhver hefur einhvern tímann talið hættulegt almenningi?

Larry Flint útgefandi klámblaðsins Hustler sagði eitt sinn við blaðamenn þegar hann stóð í stappi við yfirvöld vegna útgáfu Hustlers að auðvitað ættu þeir að styðja sig í baráttunni fyrir því að fá að gefa Hustler út. Á meðan hann fengi að gefa Hustler út gætu þeir verið vissir um að fá að gefa sín blöð út.

Mönnum kann ef til vill ekki alltaf að líka allt sem sagt er opinberlega. En um leið og menn styðja og samþykkja bann við einhverju sem sagt er, skrifað, sungið eða auglýst eiga menn einnig á hættu að þeirra eigin skoðanir fái sömu meðferð.