Í nóvember árið 1999 upplýsti G. Pétur Matthíasson, þáverandi innheimtustjóri afnotagjalda Ríkisútvarpsins, að það væri hluti af launakjörum starfsmanna RÚV að fá afnotagjöldin felld niður. Í blaðaviðtali sagði hann ákvæði um þetta í kjarasamningi starfsmanna. Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er slík undanþága frá greiðslu afnotagjalda þó ekki heimil. En þótt starfsmenn Ríkisútvarpsins geti ekki hugsað sér að greiða afnotafjöldin og brjóti frekar lög en að greiða þau auglýsir Ríkisútvarpið látlaust að stofnunin sé „þjóðareign í þína þágu“.
Nú er ekki gott að segja hvort menn eru almennt sammála því að rekstur Ríkisútvarpsins sé í þeirra þágu. Það er hins vegar hægt að komast að því með tiltölulega einföldum hætti. Það mætti gefa fólki kost að að velja um það hvort það greiðir afnotagjöldin. Þá kæmi líklega í ljós hvort menn telji stofnunina í sína þágu. Að vísu hefur verið gerð könnun á þessu meðal tæplega 400 starfsmanna Ríkisútvarpsins með því að gefa þeim kost á að afnotagjöldin séu felld niður. Þeir hafa allir nýtt sér það. Enginn þeirra telur Ríkisútvarpið í sína þágu.
Nú eru hins vegar uppi hugmyndir um að hætta innheimtu afnotagjalda beint. Þess í stað vilja menn setja Ríkisútvarpið á fjárlög ríkisins og innheimta afnotagjöldin í raun með öðrum sköttum. Með því væri í raun verið að fela kostnaðinn sem almenningur ber af Ríkisútvarpinu. Þótt rekstur ríkisins á útvarpi sé fráleitur og stórfurðulegt að hið opinbera standi í þessum rekstri þegar hundruð annarra sjónvarpsstöðva eru í boði eru afnotagjöldin þó sá skattur sem hvað skástur er hér á landi. Afnotagjöldin leggjast nefnilega jafnt á þá sem greiða þau og eru innheimt sérstaklega svo menn sjá hvað þeir eru að greiða fyrir. Það eru í raun fá dæmi um skatt sem er svo réttlátur gagnvart greiðendum þótt tilefni hans sé út í bláinn. Það væri fínt ef aðrir skattar væru með þessum hætti; almennir og ljóst í hvað þeir fara.