Á næstu árum stækkar fríverslunarsvæði Ameríku, FTAA, og mun ná frá Beringssundi við Alaska til syðsta tanga álfunnar, Cabo de Hornos. Á þessu stærsta fríverslunarsvæði í heimi verða 800 milljónir manna og margt bendir til að Bandaríkjadalur verði sameiginleg mynteining. Meginmarkmið FTAA er viðskiptafrelsi án stjórnmálalegs samruna andstætt því sem Evrópusambandið stefnir að með sín aðildarríki. Íslendingar eiga mikil viðskipti og menningarsamskipti við Ameríku. Þau rök sem heyrast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu má allt eins heimfæra á aðild Íslands að fríverslunarsvæði Ameríku. Ódýrari matvara með frelsi í innflutningi búvöru og tollfrjáls aðgangur að mikilvægum mörkuðum fengist með aðild að FTAA. En gallarnir á ESB aðild eiga ekki við um aðild að FTAA. Ísland þarf ekki að láta stjórn fiskveiða af hendi, ekki að greiða milljarða króna í styrkjasjóði, ekki að skerða fullveldi ríkisins meira en orðið er og Íslendingar þyrftu ekki að bugta sig og beygja fyrir tilskipunum frá „samstarfsþjóðunum“ um allt milli himins og jarðar.
Á fréttavef Vísis í gær var rætt við Ásgeir Jónsson hagfræðing um kost og löst á því að leggja íslensku krónuna niður og taka upp annan gjaldmiðil. Ásgeir virðist frekar hallast að því að Íslendingar eigi að taka upp dal en evru ef skipt verði um gjaldmiðil á annað borð. Ásgeir bendir á að frá árinu 1994 hefur útflutningur á þjónustu (t.d. sala til ferðamanna og á tækni og hugviti) vaxið um 52% og er nú um þriðjungur af heildarútflutningi Íslendinga. Árið 1998 voru 44% af þjónustuviðskiptum Íslands við N-Ameríku, en 21% við evrusvæðið. Vöruútflutningur vó þyngra á evrusvæðinu og voru 34% af öllum vöruviðskiptum, en 13% við N-Ameríku. Haft er eftir Ásgeiri að útflutningur á þjónustu sé vaxtarbroddurinn í íslensku efnahagslífi á meðan vöruútflutningur, sem samanstendur mest af sjávarafurðum, eigi takmarkaða vaxtarmöguleika vegna fullnýtingar á fiskistofnun landsins. Með öðrum orðum virðast vaxtarmöguleikarnir liggja í viðskiptum vestur á bóginn.
Græni dalurinn hefur yfirburðastöðu í heimsviðskiptum og hann er vanur að vera að heiman. Hvarvetna er hann álitinn traust mynt og menn taka við honum fegins hendi í skiptum fyrir hvaða gjaldmiðil sem er. Meiri hluti myntarinnar er utan Bandaríkjanna og frá 1980 hefur 80% viðbótareftirspurnar eftir dölum verið utan Bandaríkjanna. Evran er hins vegar óskrifað blað og vilji menn taka upp annan gjaldmiðil en krónuna er eðlilegt að það sé dalurinn.
Ef til vill má líkja þessu við það Íslendingar ætluðu að skipta um tungumál. Hvort væri þá skynsamlegra að taka upp ensku, sem hefur þegar mikla útbeiðslu, eða tungumál sem einhverjir menn hafa miklar væntingar um, svo sem esperanto?