121. tbl. 5. árg.
Í dag flytja verkalýðsrekendur ræður um ágæti starfa sinna og láta að því liggja að kjör launamanna séu þeim að þakka. Að án þeirra væru launamenn mun verr launaðir en nú er því þeir hækki launin með harðfylgi við samningaborðið. Að halda fram þessari skoðun þjónar þröngum sérhagsmunum verkalýðsrekendanna, því þeir halda stöðu sinni í krafti þess að launamenn trúi að kjörin ráðist aðallega af framgöngu verkalýðsrekendanna. Þessi skoðun verkalýðsrekendanna á sér þó litla stoð í raunveruleikanum. Ágæta umfjöllun um þessi mál má finna í bókinni Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, en þar segir meðal annars:
Sú trú, að verkalýðsfélög geti í raun og veru hækkað laun þegar til lengri tíma litið og hjá öllu vinnandi fólki er ein af stóru ranghugmyndum nútímans. Þessi ranghugmynd er aðallega afsprengi þess að menn átta sig ekki á því að laun ákvarðast í grundvallaratriðum af framleiðni vinnuafls. Sú staðreynd er til að mynda ástæðan fyrir því að laun í Bandaríkjunum voru mun hærri en laun á Englandi eða í Þýskalandi alla þá áratugi sem „verkalýðshreyfingin“ í síðarnefndu löndunum tveimur var mun lengra á veg komin. Þrátt fyrir yfirgnæfandi sannanir þess að framleiðni vinnuafls hafi mest áhrif á laun, gleyma verkalýðsforingjar því yfirleitt eða taka ekki mark á því. Það sama á við um hinn stóra hóp þeirra sem rita um hagfræðileg málefni og reyna að verða kunnir sem félagshyggjumenn með því að apa þetta eftir þeim. Talsmenn félagshyggjunnar láta oft eins og nauðsynleg forsenda þess að framleiðni vinnuafls hækki laun sé sú að vinnuveitendur séu almennt góðir og örlátir menn sem þyrstir í að gera það sem rétt er. Þessu er þveröfugt farið. Hún byggist á því að sérhvern vinnuveitanda þyrsti í að auka eigin gróða eins og frekast má verða. Ef fólk er vinnuveitandanum í raun meira virði en þau laun sem það fer fram á segja til um, hvers vegna ætti hann ekki að notfæra sér það að fullu? Hvers vegna ætti hann ekki frekar að vilja græða 1 dal á starfsmanni en að sjá einhvern annan vinnuveitanda græða 2 dali á honum? Og á meðan þessar aðstæður eru fyrir hendi er tilhneiging hjá vinnuveitendum til að hækka það sem þeir bjóða starfsmönnunum þar til fullu efnahagslegu virði þeirra er náð. |