Það er afar sjaldgæft að þegar ráðherrar vilja „láta til sín taka“ að úr verði gáfuleg mál. Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp – og hyggst gera það að lögum fyrir þinghlé – um að þyngja þyngstu refsingar við fíkniefnabrotum úr 10 árum í 12. Sólveig sækir málið fast og virðist staðráðin í því láta engin rök hrekja sig af leið. Því gegn þessari hugmynd eru nefnilega ýmis rök. Sem dæmi má nefna að nú er svo komið að menn eru farnir að fá upp í 9 ára fangelsi fyrir tilraunir til fíkniefnasmygls en engu að síður er ekkert lát á nýjum málum. Enginn þarf að efast um að lagabreyting eftir óskum Sólveigar Pétursdóttur yrði til þess að dómar þyngdust enn frá því sem nú er og yrðu fljótlega að 11-12 árum. Til samanburðar má nefna að fyrir manndráp eru menn yfirleitt dæmdir í 14-16 ára fangelsi. Hvaða áhrif halda menn að það hafi, ef fíkniefnasalar mega búast við 12 árum fyrir smygl en 14 árum fyrir manndráp? Ætli margir þeirra teldu ekki áhættunnar virði að myrða lögregluþjóna eða vitni, ef það mætti verða til þess að þeir slyppu við handtöku? Að minnsta kosti yrði refsingin litlu þyngri ef þeir næðust hvort sem er.
Og það er ekki eins og enginn hafi hreyft andmælum þegar Sólveig mælti fyrir frumvarpi sínu. Þingmenn eins og Guðmundur Árni Stefánsson og Lúðvík Bergvinsson færðu báðir rök gegn frumvarpi hennar og má sérstaklega vitna hér til orða Lúðvíks í umræðum um málið: „Að baki þessari ákvörðun býr ekki annað en tilfinning fyrir því að dómar í fíkniefnamálum kunni að vera þróast þannig að tíu ára refsiramminn sé ekki nægilegur. Það hefur komið fram að undanförnu að lögreglan hefur lagt hald á meira magn fíkniefna undanfarið en nokkru sinni fyrr. Það bendir sterklega til þess að innflutningur sé meiri en verið hefur. Af því má ráða að hertar refsingar og þyngri dómar hafi ekki haft þau áhrif sem að var stefnt.“
Sala annarra fíkniefna en áfengis og tóbaks til sjálfráða einstaklinga er lögbrot. Þetta lögbrot fer þó fram án þess að glæpamaðurinn brjóti á nokkrum manni. Menn gerast fíkniefnaneytendur og kaupa ólögleg fíkniefni á eigin ábyrgð, enginn neyðir menn til þess. Það eina sem hann brýtur eru lögin. Fíkniefnasalar bjóða vissulega vöru sem getur leitt til ógæfu. Öllum sem kaupa fíkniefni er það ljóst. Engum dettur þó í hug að varpa Geir H. Haarde æðsta yfirmanni ÁTVR í 12 ára fangelsi þótt ýmsir kúnnar ÁTVR lendi í ógöngum með neyslu áfengis. Þó voru fangelsi yfirfull að sölumönnum áfengis fyrr á öldinni á meðan menn trúðu því að áfengisbölið væri sölumönnum áfengis að kenna og með því að stinga þeim í fangelsi væri málið leyst.
En þær stöllur, Sólveig Pétursdóttir og hægri hönd hennar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður allsherjarnefndar, eru hins vegar staðráðnar í því að ekki megi einu sinni fresta þessu máli svo ræða megi það af einhverju viti: Nei, þetta þjóðþrifamál verður að komast strax í gegn, þyngri og þyngri refsingar hljóta að vera það ráð sem dugar. Það þarf bara að „senda skýr skilaboð“, og þá hætta menn þessu smygli.