Miðvikudagur 25. apríl 2001

115. tbl. 5. árg.

Háir skattar á bíla seinka endurnýjun bílaflotans eins og oft hefur verið bent á þessum síðum. Nýir bílar eru léttari, búnir sparneytnari vélum og betri mengunarvarnarbúnaði og öryggisbúnaði en þeir sem eldri eru. Þrátt fyrir þetta hafa gjarnan verið uppi háværar kröfur um aukna skattheimtu á bíla í nafni umhverfisverndar. Þessar kröfur hafa verið uppi þrátt fyrir að skattar, virðisaukaskattur og vörugjöld, séu þegar mjög háir og geri mönnum augljóslega erfiðara að endurnýja bíla sína. Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp fjármálaráðherra um tímabundna undanþágu frá virðisaukaskatti af tilteknum fólksflutningabílum. Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Um er að ræða tímabundna aðgerð, byggða á öryggis- og umhverfis sjónarmiðum, sem miðar að því að auðvelda rekstraraðilum hópferðabifreiða og sérleyfishöfum að endurnýja hópferðabifreiðaflota sinn.“ Og áfram segir í greinargerðinni: „Með frumvarpinu er því verið að stíga ákveðið skref í endurnýjun hópferðabifreiða til að ná fram jákvæðum áhrifum í ferðaþjónustu sem og öryggis- og umhverfismálum.“

Vissulega er ánægjulegt að stjórnvöld viðurkenni nú að háir skattar á ökutæki dragi úr öryggi og skaði umhverfið. Það vekur því furðu að undanþágan frá virðisaukaskattinum gildi einungis til ársins 2003. Með því eru stjórnvöld einnig að stýra fjárfestingum heillar atvinnugreinar og mismuna mönnum innan greinarinnar eftir því hvenær þeir endurnýja atvinnutæki sín. Hvaða deild í fjármálaráðuneytinu reiknaði það út að árin 2001 til 2003 séu bestu ár aldarinnar til að kaupa nýjar rútur? Það er jafnframt sérkennilegt að stjórnvöld hugi einungis að rútum fyrir 18 farþega og fleiri í þessu sambandi. Ef fjármálaráðherra vill vera samkvæmur sjálfum sér hlýtur hann að leggja fram frumvarp sama efnis er nær til annarra farartækja. Sömu rök eiga við um nauðsynlega endurnýjun allra farartækja. Skattalækkun myndi skila sér í umhverfisvænni og öruggari tækjum. Að öðrum kosti verða eigendur annarra farartækja að beita fjármálaráðherra þrýstingi á sama hátt og eigendur hópferðabifreiða fyrir fleiri en 18 farþega. Ráðherrann hlýtur að sýna eigendum einkabíla, vörubíla, leigubíla, sendiferðabíla, strætisvagna, mótorhjóla og hópferðabíla fyrir 17 farþega og færri sama skilning og hinum.