Fagráðherrar Sjálfstæðisflokksins eiga það flestir sameiginlegt að segja sjaldan eða aldrei orð um annað en snertir dagleg viðfangsefni ráðuneytis þeirra. Sjaldgæft er að þeir leggi orð í belg um önnur mál og má þá einu gilda hversu hart kann að vera deilt um þau þá stundina. Frá þessu er skýr undantekning sem starfar í menntamálaráðuneytinu og heitir Björn Bjarnason. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr við Björn og störf hans, þá munu fæstir neita því að hann sé ódeigur við að segja skoðun sína á þeim málum sem hæst ber hverju sinni, óháð því hvort nokkur er að krefja hann sagna eða ekki. Í áranna rás hefur Vefþjóðviljinn til dæmis mjög gagnrýnt margt það sem komið hefur frá Birni – mætti þar nefna baráttu Björns fyrir því að skattgreiðendur byggi sérstakt „tónlistarhús“ yfir þann hóp uppþembdra menningarvita sem ekki tímir að að byggja það fyrir eigið fé – en viðurkennir einnig að Björn Bjarnason er einn örfárra íslenskra stjórnmálamanna sem geta í raun kallast forystumenn.
Eins og margir vita heldur Björn úti heimasíðu þar sem hann segir skoðun sína á hinu og þessu. Í nýjasta pistli sínum þar fjallar hann meðal annars um eitt af þeim litlu atriðum sem heitir baráttumenn Evrópusambandsins á Íslandi hafa notað með öðru í trúboði sínu. Björn segir: „[A]lþjóðasamstarf [hefur] aukist á öllum sviðum, en ég verð ekki var við, að Ísland sé nokkurs staðar að einangrast, þótt við séum utan Evrópusambandsins (ESB). Við gerðum samning við ESB um evrópska efnahagssvæðið og hann stendur fyrir sínu um þau efni, sem hann gildir. Er furðulegt að heyra, að þessi samningur hafi verið hugsaður sem einhver biðleikur eða aðlögunarsamningur að ESB-aðild. Svo var aldrei, þvert á móti var það sagt við EFTA-ríkin, að þau ættu tvo kosti, að gera EES-samninginn eða ganga í ESB. Hlutlausu ríkin, Austurríki, Finnland og Svíþjóð vildu gera EES-samninginn, á meðan þau töldu aðild að ESB ögrun við Sovétríkin. Eftir að Sovétríkin hurfu úr sögunni, ákváðu þessi ríki að gerast aðilar að ESB. Þau litu aldrei á EES-samninginn sem neinn biðleik – væri hann það, ætti að bjóða ríkjunum, sem nú æskja aðildar að ESB að gerast EES-ríki til að búa sig undir aðildina, það er hins vegar ekki gert, því að aðild að EES er varanleg og EES-svæðið stækkar sjálfkrafa með stækkun ESB. “
Þetta atriði sem Björn nefndir í pistli sínum er auðvitað aðeins eitt af örfáum smáatriðum sem öðru hverju eru hrópuð á götum úti sem sérstök sönnun fyrir því að Ísland eigi þann einan kost að reyna að ganga í Evrópusambandið áður það verður um seinan. Undanfarin ár hafa af og til skotið upp kollinum menn sem hafa uppgötvað nýjasta þúsundáraríki skrifræðisins og vilja endilega boða það fagnaðarerindi til sem flestra. Er þeim að vonum töluvert niðri fyrir og yfirleitt auðséð að þeim þykir lítið til þeirra koma sem telja í barnaskap sínum að Ísland geti staðið sjálfstætt og fullvalda á sínum stað í Atlantshafinu, rétt eins og Romano Prodi væri bara ekki til. En þrátt fyrir að framganga þeirra og hátterni bendi jafnan til að þeir einir viti hvað rétt sé og rangt, þá vill svo undarlega til að enn hefur þeim ekki tekist að færa fram vitræn rök fyrir kenningum sínum.
Enn hefur nefnilega ekkert komið fram sem sýni að Ísland geti ekki komist vel af án þess að ganga Brussel-valdinu á hönd. Með EES-samningnum – hvað sem segja má um þann samning að öðru leyti – urðu viðskipti og fólksflutningar milli Íslands og Evrópusambandsríkja almennt frjáls. Ekkert hefur komið fram sem sýni að Ísland ætti að afsala sér fullveldi sínu í skiptum fyrir nánari tengsl við þetta tiltekna ríkjabandalag og búa um leið um sig bak við tollamúra þess. Þvert á móti mæla hins vegar mörg rök með því að Íslendingar ættu að vinna að því að verslun verði almennt frjáls milli Íslands og annarra ríkja. Það ættu þeir helst að gera með því að gera fríverslunarsamninga við sem flest ríki og ríkjasambönd, en forðast í lengstu lög að segja sig í húsmennsku hjá erlendum skriffinnum.