Fyrir hálfum mánuði sagði Vefþjóðviljinn frá umfjöllun tímaritsins Uppeldis um ný fæðingarorlofslög og viðtölum tímaritsins við nokkra feður í fæðingarorlofi. Eins og lesendur muna þá gagnrýndu feðurnir lögin harðlega og mættu orð þeirra að ósekju ná eyrum þeirra haardesku stjórnmálamanna sem börðu lögin í gegn á sínum tíma. En það var fleira athyglisvert í þessu tölublaði Uppeldis. Þar skrifaði skemmtikrafturinn Davíð Þór Jónsson grein sem hann nefndi „Svaðilfarir bernskunnar“ og er óhætt að segja að þar sé ekki tekið á málum af þeirri væmni og tilgerð sem oft verður allsráðandi ef tal berst að nokkru því sem snertir börn.
Segja má, að meginatriðið í grein Davíðs Þórs sé það að nú á tímum séu börn vernduð svo mjög að næstum sé búið að útrýma öllum ævintýrum og háska úr lífi þeirra. Davíð Þór segir að í hverfinu þar sem hann býr sé bæði venjulegur róluvöllur og spýtnahaugur sem einhver gamall karl hafi safnað að sér. Nýlega hafi svo tvö börn Davíðs Þórs, átta og tíu ára, verið úti að leika sér og þá farið í spýtnahauginn en ekki róluvöllinn, en sú sæla staðið skammt: „Ekki höfðu þau leikið sér lengi þegar ég heyrði að kona í næsta húsi var farin að æpa á þau og skipa þeim að hypja sig. „Það er hættulegt að leika sér þarna,“ sagði hún. „Maður getur meitt sig.“ Börnin voru gáttuð. Þeim fannst svo augljóst að þau gætu meitt sig – ef þau færu ekki varlega – að þau trúðu því varla að konan stæði í þeirri meiningu að hún væri að segja þeim eitthvað sem þau hefðu ekki gert sér grein fyrir sjálf.“
„Nú eru til dæmis uppi hópar manna sem ekkert annað virðast hafa fyrir stafni en tala í mærðarlegum tóni um börn og allt sem að þeim lýtur. Fólk sem er þeirrar skoðunar að umfram allt beri mönnum að „vernda blessuð börnin“ hvað sem á dynur.“ |
Davíð Þór rifjaði svo upp eigin æsku þar sem hann og félagar hans höfðu gjarnan leikið sér niðri í Slippi og komið heim útataðir í koppafeiti. Þar hafi vissulega mátt meiða sig, reka sig á og skera sig. Stundum fékk einhver „gat á hausinn og hljóp grenjandi heim. Það þótti ekkert tiltökumál, enda birtist viðkomandi yfirleitt fljótlega aftur og skartaði þá stórum plástri sem í augum okkar hinna jafngilti heiðursorðu fyrir vasklega framgöngu.“
Nú er hins vegar öldin önnur og mikill iðnaður sem snýst um það að gæta „hagsmuna barna“. Og hví skyldi þess ekki sjá stað á þeim leiksvæðum þar sem fóstrur og fagaðilar ætlast til að sæl og glöð nútímabörn umgangist hvert annað á kurteisan og málefnalegan hátt í hættulausu umhverfi? Davíð Þór lýsir nútímanum svo: „Þegar leiksvæði fyrir börn eru skoðuð þarf mann ekki að undra að þau séu iðulega mannlaus. Búið er að útrýma þaðan öllum háska; jafnvel rólurnar eru úr gúmmíi og um keðjurnar, sem þær hanga í, hafa verið settar gúmmíslöngur – væntanlega til að börn í dag þurfi ekki að læra það sama af reynslunni og mín kynslóð þurfti að gera: Maður getur klemmt sig á keðjunum ef maður passar sig ekki. Og þegar ný íbúðarhverfi eru skoðuð sést að þótt alls staðar sé reiknað með leiksvæðum fyrir börn virðist hvert einasta grindverk vera hannað með það í huga að ekki sé hægt að ganga eftir því. Jafnvel hin klaufskustu börn gætu ekki meitt sig þótt þau reyndu. Börnunum eru afmörkuð svæði sem gerð hafa verið svo „beibíseif“ að eini háskinn, sen þau geta lent í, er að svelgjast á sandi.“
Það er ánægjulegt að lesa loksins grein sem ekki lyktar langar leiðir af þeirri væmni og viðkvæmni sem mörgum er orðin svo töm þegar börn koma til tals. Nú eru til dæmis uppi hópar manna sem ekkert annað virðast hafa fyrir stafni en tala í mærðarlegum tóni um börn og allt sem að þeim lýtur. Fólk sem er þeirrar skoðunar að umfram allt beri mönnum að „vernda blessuð börnin“ hvað sem á dynur. Hvergi megi barn geta meitt sig, hvergi megi orði halla á barn – hvernig svo sem það hagar sér – og aldrei megi segja neitt sem geti orðið til þess að barn fari að efast um sig eða sína. Kennari sem ætlar að freista þess að hafa hemil á uppivöðslusömum nemanda verður nú á dögum að gæta að stjórnsýslulögum, andmælarétti og kærufresti áður en hann biður krakkann með hófsömum og málefnalegum hætti að tala aðeins lægra. Annars má kennarinn búast við því að verða kærður – foreldrar krakkans þar fremstir í flokki – og jafnvel vikið úr starfi „um stundarsakir“ á meðan „málið er rannsakað.“ Verði menn svo fyrir því að vera ákærðir fyrir að hafa orðið barni að meini, þá lenda þeir í þeim flokki ákærðra manna sem helst á engra mannréttinda að njóta. Og lögmenn sem hugsanlega þora að taka til varna fyrir þá, þeir verða í munni umhyggjusamra nútímamanna að „talsmönnum barnaníðinga.“
Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að mæla með því að börn slasist og enga samúð hefur Vefþjóðviljinn með þeim mönnum sem beita börn ofbeldi og vonar að slíkir menn náist og þeim verði refsað. En þó menn séu þeirrar skoðunar, þá er óþarfi að ganga svo langt að ofvernda börn svo að öll ævintýri hverfi úr leikjum þeirra.