Fyrir skömmu var sagt frá því í fréttum að Guðjón A. Kristjánsson þingmaður hefði lagt fram frumvarp til breytinga á áfengislögum. Ekki var annað að skilja á fréttum en með breytingunum ætti hver sem er að geta bruggað til eigin nota. Þótt efnislega sé frumvarpið aðeins ein málsgrein er samt á því einn galli. Það gerir aðeins ráð fyrir að mönnum verði leyft að brugga úr innlendum berjum og jurtum! Í greinargerð með frumvarpinu segir hins vegar: „Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.“ Það er óhætt að segja að hér sé boðað aukið frelsi í anda „Frjálslynda flokksins“. Líklega má kalla þetta aukna frelsi séríslenskt.
Ef Guðjón vill vera samkvæmur sjálfum sér hlýtur hann að leggja fram frumvarp um að einungis megi nota íslenska tómata og gúrkur á smurbrauð á heimilum landsmanna, aðeins megi nota íslenskt kál í salöt og íslenskan rabarbara í grauta og íslenskan mó í ofninn til að sjóða grautinn. Það blasir einnig við að víða í Evrópu eru vínframleiðendur styrktir af hinu opinbera og því hljóta íslenskir framleiðendur hrútaberjavíns að fá sambærilegan styrk, tollvernd eða niðurgreitt rafmagn. Svo getur Samkeppnisstofnun skrifað nokkur hundruð síðna skýrslu og bent á að verndartollarnir dragi úr samkeppni í víngerð. Þá geta landsmenn allir, ekki síst þeir sem sitja á þingi, verið alveg hlessa á ástandinu og látið sér það koma á óvart.