Miðvikudagur 28. mars 2001

87. tbl. 5. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir sendir skæðadrífu fyrirspurna til ráðherra á hverju þingi. Hún gerir þetta yfirleitt í von um að fá svar um að eitthvað hafi farið á verri veg. Þannig kemst hún í sjónvarpið sem fröken fundvís á vandamál. Fyrir áratug og þar um bil jukust erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar verulega. Þá var ástæðan sú að hið opinbera tók lán erlendis til að fjármagna hallarekstur sinn. Að undanförnu hafa hins vegar einstaklingar og fyrirtæki átt stærstan þátt í því að auka erlendar skuldir Íslendinga. Eignir Íslendinga erlendis hafa raunar einnig vaxið mjög á sama tíma. En þessi skuldsetning einstaklinga og fyrirtækja bæði erlendis og innanlands vakti athygli Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef til vill hefðu auknar skuldir leitt til aukinna vanskila og gjaldþrota. Jóhanna sendi því fyrirspurn um gjaldþrot, beiðnir um fjárnám og árangurslaus fjárnám til dómsmálaráðherra.

Því miður fyrir Jóhönnu hefur gjaldþrotum og beiðnum um árangurslaus fjárnám fækkað á undanförnum árum. Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að árið 1995 voru 857 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota og 551 árið 1996 en síðan hafa þeir verið undir 500 ár hvert. Árangurlausum fjárnámum og beiðnum um fjárnám hefur einnig fækkað frá 1995. Jóhanna kemst því ekki með nein ótíðindi í sjónvarpið. Kannski hefur Jóhanna ekki áttað sig á því að kosningastjóri hennar og viðskiptafélagi hans hafa sest í borgarstjórn og borgarráð Reykjavíkur (ætti máske að heita borgaráð Reykjavíkur með þessa höfðingja innanborðs) og gæti það hafa haft áhrif til fækkunar fjárnámsbeiðna.