Hér á landi starfa ýmis samtök sem nefna sig umhverfisverndarsamtök og hefur þeim fjölgað í seinni tíð. Þetta eru yfirleitt fámenn samtök og hinn almenni maður hefur ekki haft áhuga á að styðja við bakið á þeim með greiðslu félagsgjalda. Ekki verður séð neitt ólýðræðislegt við það þótt ýmis samtök njóti ekki almennrar lýðhylli. Málflutningur þeirra hefur þá einfaldlega ekki fengið hljómgrunn. Hinn almenni maður styður eðlilega ekki samtök sem honum þykir starfa gegn hagsmunum sínum. Á meðan menn geta valið og hafnað því að styðja samtök nefnast samtökin frjáls félagasamtök. Þegar samtökin eru hins vegar komin á spena hins opinbera verða þau að velja sér aðra nafnbót.
Í gær var greint frá því að umhverfisráðherra og ellefu umhverfisverndarsamtök hefðu undirritað samstarfsyfirlýsingu með það að markmiði að efla lýðræðislega umræðu um umhverfis- og nátttúruvernd. Ráðherra mun bjóða fulltrúum þessara samtaka að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúning lagafrumvarpa og reglugerða, efna til reglulegra samráðsfunda við þá og mun bjóða þeim á „umhverfisþing“ annað hvert ár. Einhver myndi sjálfsagt halda því fram að nóg væri að umhverfisráðherra hlustaði á Spéspegilinn og Samfélagið í nærmynd í Ríkisútvarpinu til að kynnast sjónarmiðum þessara samtaka. En líklega væri það of stór skammtur fyrir ráðherrann.
Þessu til viðbótar ætlar umhverfisráðherra að láta hinn almenna mann, sem kærir sig ekki um að styrkja þessi samtök, styrkja þau árlega í gegnum ríkissjóð. Mun umhverfisráðuneytið veita þeim „fjárhagslegan stuðning til þátttöku í stefnumarkandi alþjóðlegum fundum um umhverfismál“ og „til faglegrar uppbyggingar“. Nú veit Vef-Þjóðviljinn ekki hversu háar fjárhæðir verða færðar frá hinum almenna manni – sem vill ekki styrkja umhverfissamtökin – til þessara sömu umhverfissamtaka svo forsvarsmenn þeirra komist á alþjóðlega samdrykkju umhverfisverndarsinna. En ef til vill væri rétt að taka mið af manninum sem ruddi brautina fyrir þá Íslendinga sem vilja láta almenning greiða fyrir ferðir sínar á safnaðarfundi umhverfisverndarsamtaka um víða veröld. Færi ekki vel á því að binda þetta framlag í ferðasjóð umhverfisverndarsamtakanna við árlegan meðalkostnað Seðlabankans af ferðum Steingríms Hermannssonar á alþjóðlegar umhverfisverndarsamkomur?