„Grundvallaratriðið er að leikreglurnar séu virtar“ sagði í leiðara Morgunblaðsins í gær um skoðanakönnun þá sem fram fór meðal borgarbúa um framtíð flugvallar í Reykjavík. Undir þau orð er óhætt að taka. Þær leikreglur sem settar voru fyrir þessa könnun voru einfaldar: 75% þátttöku eða 50% stuðning borgarbúa þurfti til að niðurstaðan yrði bindandi. Hvorugt náði fram að ganga. Engu að síður segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins: „Þegar gengið hefur verið til lýðræðislegra kosninga er aðeins spurt hvernig atkvæði voru greidd, ekki hversu stór meirihlutinn var.“! Ekki er gott að sjá hvernig höfundurinn kemur þessu heim og saman.
Morgunblaðið og raunar öll íslensku pappírsblöðin hvöttu borgarbúa til að taka þátt í könnuninni. Aðeins 37% borgarbúa sinntu því kalli. Þeir sem sátu heima höfðu m.a. leikreglunar í huga þegar þeir ákváðu hvort þeir tækju þátt. Leikreglurnar buðu upp á að með því að sitja heima gætu menn í raun vísað málinu aftur til borgarstjórnar. Samkvæmt leikreglunum þýddi lítil þátttaka að málið lenti aftur á borði borgarstjórnar. Ef farið verður að leikreglunum er borgarstjórn algjörlega óbundin af því að minnihluti þess minnihluta borgarbúa sem tók þátt í könnuninni hafi talið rétt að flugvöllurinn færi.
Kannanir af þessu tagi geta vafalaust komið til greina í mikilvægari málum. Morgunblaðinu virðist hins vegar mjög í mun að þessi aðferð við lausn á hvers kyns málum verði viðtekin. Það kemur því verulega á óvart að blaðið skuli hvetja til þess að leikreglum verði breytt eftir að niðurstaða liggur fyrir. Er sú hvatning blaðsins til kosningasvika líkleg til að auka traust manna á þessari aðferð? Nóg var nú samt. Borgarstjóri rak áróður fyrir öðrum kostinum á kostnað almennings, borgin hvatti fólk með dýrum auglýsingum í flestum miðlum til að kjósa og kjörstöðum var raðað um borgina með það fyrir augum að fá „rétta“ kjósendur á vettvang.
Borgarbúum var sagt að ef 75 % kæmu á kjörstað eða fleiri en 50 % kysu annan hvorn kostinn, að þá myndi niðurstaða „kosningarinnar“ vera endanleg um veru eða fjarveru flugvallarins í Vatnsmýri. Annars ekki. Skoðanakannanir síðustu vikurnar fyrir kjördag sýndu mönnum að slíkt var fjarri öllu lagi. Hefur það með öðru eflaust haft áhrif á marga að fara ekki óþarfaferð á kjörstað. Það yrði vægast sagt ósmekklegt ef borgaryfirvöld reyndu að fara að óskum ritstjóra Morgunblaðsins og koma aftan að borgarbúum með þeim hætti sem ritstjórinn lagði til í gær. Þó nokkrir fjölmiðlamenn séu í ofstopafullri krossferð fyrir almennum skyndikosningum um öll mál – og þar með stórauknum áhrifum fjölmiðlamanna – þá verða þau trúarbrögð að víkja fyrir raunveruleikanum.
Það er ljóst að reykvískir kjósendur hafa ekkert sagt um það hvort þeir vilja hafa flugvöll í Vatnsmýri eða ekki. Hafaríið á laugardag hefði orðið að kosningu ef tilteknum skýrum skilyrðum hefði verið fullnægt. Það var ekki gert – því fór reyndar víðs fjarri – og því liggur ekkert fyrir um vilja reykvískra kjósenda í þessu „flugvallarmáli“. Borgaryfirvöld framtíðarinnar – það er að segja þau sem sitja munu eftir kosningar árið 2016 – geta vel ákveðið að flugvöllurinn skuli á brott úr Vatnsmýri. En þau verða þá að hafa manndóm í sér til að kannast við þá ákvörðun sem sína eigin. Slík ákvörðun verður ekki tekin í nafni „borgarbúa“.