Þriðjudagur 20. mars 2001

79. tbl. 5. árg.

Gaman væri að vita hvaða áhrif það hefði haft á Björgu Siv Juhlin Friðleifsdóttur ef hún hefði um síðustu helgi verið kjörin til raunverulegrar valdastöðu. Því jafnvel svo rólegt embætti sem staða „ritara Framsóknarflokksins“ virðist hafa náð að hafa talsverð áhrif á hana og mun ýmsum þykja sem fyrstu viðbrögð hennar eftir að hún tók við embætti hafi verið þau að misskilja aðeins stöðu sína og hlutverk í mannheimi. Eftir að Björg Siv hafði klappað innilega fyrir nýjum ritara – sjálfri sér – þá kvaddi hún sér hljóðs og var ekki annað að heyra en ný öld væri runnin upp á Íslandi og tími Framsóknarflokksins genginn í garð.

En vandi eykst með vegsemd hverri og Björg Siv upplýsti flokksmenn um ýmisleg verkefni sem flokkurinn þarf að sinna í framtíðinni. Í fyrsta lagi þá vék hún að svokölluðum samstarfsflokki framsóknarmanna, Sjálfstæðisflokknum, og greindi frá því að sá flokkur mætti alls ekki dafna og væri það beinlínis hættulegt fyrir vestrænt lýðræði ef fylgi þess illa flokks ykist í lýðræðislegum kosningum. Menn þurfa varla að velkjast í vafa um að kæmi það mæta blað Dagur-Tíminn út eftir glæsiviðtalið við Ágúst Einarsson mundi það svo fljótt sem verða má taka hástöfum undir þessa gagnmerku yfirlýsingu Bjargar Sivjar en hugsanlega munu aðrir fjölmiðlar taka henni af aðeins meiri rósemd. Og þó það sé ómaklegt þá má ímynda sér að meiri undrun og athygli vekti ef ráðherra Sjálfstæðisflokksins gerðist langorður um það að hugsanleg fylgisaukning framsóknarmanna væri stórkostleg ógnun við lýðræðið. Slíkur munur á viðbrögðum yrði þó auðvitað einungis vegna þess að heimurinn er ósanngjarn en ekki vegna þess að flestir átti sig á því Framsóknarflokkurinn er á vissan hátt smáflokkur og Björg Siv viðeigandi ritari hans.

Fleira snjallt kom frá hinum nýja ritara. Þannig vill nefnilega til að í landinu starfar stjórnmálaflokkur einn, Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem hefur náð talsverðu fylgi meðal landsmanna þrátt fyrir það að vera forystu framsóknarmanna alls ekki að skapi. Líklega hafa kjósendur ekki áttað sig á þeirri staðreynd því vart hefðu svo margir þeirra stutt þennan flokk ef þeim hefðu verið allar staðreyndir málsins ljósar. En þetta horfir væntanlega allt til betri vegar. Björg Siv upplýsti Íslendinga nefnilega um það að þessi flokkur „á ekkert erindi“ og að þess vegna verði það „hlutverk Framsóknarflokksins að halda honum niðri“.

Og hljóta nú margir að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. Margir munu nefnilega hafa álitið að þessi flokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð, hefði einmitt það hlutverk að boða og berjast fyrir ákveðnum sjónarmiðum og að talsverður hópur Íslendinga hefði kosið þennan flokk á þing til að gera það, og væri þess albúinn að gera það að nýju ef eftir yrði leitað. Að vísu voru margir einnig þeirrar skoðunar að sjónarmið þessa flokks væru reyndar ekki þau sem landsmenn hefðu mest not fyrir en það varð þó ekki til þess að þeir sæju lýðræðislega nauðsyn þess að Framsóknarflokkurinn héldi þessum flokki niðri. En hinn nýi ritari Framsóknarflokksins hefur nú mælt fyrir um það og ekki fer Vefþjóðviljinn að rengja slíka persónu að óþörfu. Og ef marka má fréttir þá eru „vinstri-grænir“ reiðubúnir að gjalda framsóknarmönnum líku líkt. Ættu þá allir að geta vel við unað og tveir flokkar, sem mörgum þykja í óþarfara lagi, fundið sér verðugan tilgang. Róttækir miðjumenn og róttækir vinstri menn geta þá starfað við það að hafa gætur á hinum en annað fólk, sem lætur átök þeirra sig litlu varða, getur látið sér nægja að taka sér bók í hönd og rifja til dæmis upp lítið ljóð eftir Stein Steinarr:

Ein saga berst mann frá manni sem þannig hljóðar:
Hjá mörgum er ofstækið leiður og þrálátur kvilli.
Tveir gamlir og útslitnir draugar þessarar þjóðar
þreyta nú hamrama baráttu – sín á milli.
Og þó er það rétt og satt eins og sagan hljóðar
og sérlega fyndinn og óvæntur dagskrárliður:
Tveir draugar, sem ásóttu vitsmuni þessarar þjóðar,
þrauka nú við að kveða hvor annan niður.