Ágúst Einarsson féll út af þingi í síðustu kosningum eftir eitt kjörtímabil sem þingmaður fyrir Þjóðvaka. Kjósendur afþökkuðu þingframboð hans fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum. Ágúst lagði talsvert á sig til að hanga áfram á þingi, fór meðal annars í dýrt prófkjör hjá Samfylkingunni. Til að styrkja stöðu sína fyrir prófkjör og kosningar lagði hann einnig fram milljónir króna í útgáfufélag dagblaðsins Dags-Tímans árið 1997 og uppskar óvænt glæsilegt viðhafnarviðtal í sama blaði skömmu síðar. Nú herma sögur að styttist í annan endann á útgáfu Dags-Tímans og þá vilja hluthafar eðlilega fá sem mest fyrir sinn snúð. Í helgarblaði Dags-Tímans nú um helgina var því eðli málsins samkvæmt glæsiviðtal við sjálfan Ágúst Einarsson „formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar“. Hinn hlutlausi blaðamaður Dags-Tímans og starfsmaður Ágústs spyr hann: „Nú ert þú mikill eldhugi í pólitík, langar þig ekki aftur á þing?“ Og maðurinn sem reyndi að komast í þing í síðustu kosningum en kjósendur vörpuðu á dyr svarar: „Nei, það er útaf fyrir sig skemmtilegt að vera á þingi en í mínum huga er það ekki draumastarf. Mig langar hreinlega ekki til að gera þingmennsku að lífsstarfi og hingað til hef ég alltaf gert það sem mig langar til, það á við um pólitík eins og annað.“ Kjósendur hafa ekkert um það að segja hvort Ágúst gerir þingmennsku að lífsstarfi sínu, allt fer þetta eftir því hvað hann langar að gera skemmtilegt.
Í milljónaviðtalinu segir Ágúst einnig að kosningar um embætti varaformanns og ritara á flokksþingi Framsóknarflokksins séu „álíka merkilegar og kosningar í húsfélagi“. Sjálfur gengur Ágúst rogginn um bæinn og kynnir sig sem „formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar“. Þann merka titil vann hann sér inn á stofnfundi Samfylkingarinnar í maí í fyrra þar sem 426 greiddu atkvæði um frambjóðendur í embætti ritara Samfylkingarinnar en sjálfkjörið var í embætti varaformanns. Á þingi Framsóknarflokksins um helgina greiddu hins vegar 548 atkvæði um ritara og 603 um varaformann. Það eru færri íbúar í stigagangi Samfylkingarinnar en Framsóknarflokksins.