Laugardagur 17. mars 2001

76. tbl. 5. árg.

Með nýrri tillögu til þingsályktunar hyggjast Hjálmar Árnason og Ísólfur Gylfi Pálmason, þingmenn Framsóknarflokksins, kaupa sér stuðning eins þrýstihóps á kostnað skattgreiðenda. Tillagan er um ferðasjóð íþróttafélaga og hljóðar svo: „Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkenndum mótum. Úthlutun skal fara eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.“ Í greinargerð eru svo færð rök fyrir þessari makalausu tillögu. Þar er ekki farið leynt með að tillagan sé hugsuð til að færa félögum á landsbyggðinni fjármuni, enda þurfi þau meira að ferðast en lið á Reykjavíkursvæðinu. Þá er bent á að víða á landsbyggðinni eru myndarleg íþróttamannvirki, en tillöguflytjendum láist að geta þess að mannvirki þessi eru greidd fyrir almannafé og að þeir sem nota þau bera ekki kostnaðinn af þeim. Þó eru þessi íþróttamannvirki notuð sem rökstuðningur fyrir því að enn þurfi að ausa úr ríkissjóði í íþróttaiðkun.

Í greinargerðinni segir að áhugi aukist á íþróttaiðkun komist menn á Íslandsmót í viðkomandi grein, en hvers vegna láta flutningsmenn staðar numið við Íslandsmót? Skyldi ekki „áhuginn“ einnig aukast ef greitt er undir menn á mót erlendis? Hver veit nema fleiri yrðu til að iðka íþróttir ef Hjálmar Árnason og Ísólfur Gylfi Pálmason kæmu því í gegnum Alþingi að skattgreiðendur verði látnir borga undir kjósendur þingmannanna ferðalög til útlanda svo þeir megi stunda þar íþróttir. Og þá verður varla látið staðar numið við ferðakostnaðinn einan, dagpeningar hljóta að fást greiddir úr ríkissjóði enda sjálfsagt ósanngjarnt að menn missi bótalaust úr vinnu við að stunda áhugamál sín.

Þessi þingsályktunartillaga lýsir mikilli lítilsvirðingu í garð skattgreiðenda, en hið óhugnanlegasta í henni er líklega setningin: „Hér er um eðlilega jöfnunaraðgerð að ræða.“ Tekið er fram í tillögunni að hún sé „eðlileg“, þegar hverjum manni má vera ljóst að hún er fullkomlega óeðlileg. Tillagan gæti talist eðlileg ef tvö skilyrði væru uppfyllt, annars vegar að menn væru neyddir til að stunda íþróttir og fara á íþróttamót út fyrir heimabyggð sína. Hins vegar að ríkissjóður væri botnlaus hít sem aldrei þyrfti að fylla á. Hvorugt skilyrðið er uppfyllt og því er tillagan ekkert annað en ómerkilegt sérhagsmunapot og atkvæðakaup fyrir almannafé. Hún er tillöguflytjendum til lítils sóma.