Í fyrrakvöld hélt Samfylkingin opinn fund um málefni útlendinga. Ekki er vitað til þess að í þeim málaflokki sé djúpstæður skoðanaágreiningur á milli stjórnmálaflokka sem allir hafa lýst yfir vilja til að taka vel á móti útlendingum og láta þá ekki gjalda uppruna síns að neinu leyti. En sumir flokkar virðast hafa eitthvað á samviskunni því þingmenn þeirra þrástagast á því að þeir séu vinveittir útlendingum og öðrum minnihlutahópum. Líklega býr þó ekkert annað að baki en hefðbundið lýðskrum; meira er lagt í að auglýsa eigið ágæti en að vinna málstaðnum gagn.
Samfylkingin verður þó ekki sökuð um að nota málefni útlendinga í auglýsingaskyni og skeyta ekki um útlendingana sjálfa enda voru tveir útlendingar meðal frummælenda á nefndum fundi. Fundurinn var auðvitað auglýstur á veglegan hátt í blöðum og í auglýsingunni mátti sjá myndir af þremur af fimm frummælendum og fundarstjóra. Hrein hending réð því að sjálfsögðu að aðeins vantaði í auglýsinguna myndir af útlendingunum tveimur.
Í fjárlagafrumvarpi breska Verkamannaflokksins er gert ráð fyrir að skattar á eldsneyti lækki. Þetta kemur á óvart þar sem slík skattalækkun er þvert á stefnu flokksins til þessa. Kosningar eru hins vegar í nánd og þá taka auglýsingastofurnar öll völd í „nútímalegu“ jafnaðarmannaflokkunum. Þetta minnir óneitanlega á vingulshátt Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar. Í verkefnaskrá fylkingarinnar var boðaður „almennur koldíoxíðskattur“ sem á mannamáli þýðir hækkun á bensínsköttum. Á síðustu dögum kosningabaráttunnar ákváðu frambjóðendur fylkingarinnar hins vegar að neita því með öllu að það væri stefna hennar að hækka skatta á eldsneyti. Össur Skarphéðinsson var einn höfunda stefnunnar um „almenna koldíoxíðskatta“ en hefur ekki minnst á hann síðan þrátt fyrir miklar kröfur fylkingarinnar um að Ísland geri Kyoto bókunina um takmörkun á útblæstri koldíoxíðs að stjórnarskrá lýðveldisins. Á sama tíma hafa fylkingarmenn einnig kvartað undan háu bensínverði.