Jafnan þegar menn hugsa með sér að ekki aðeins sé Samfylkingin mesti lýðskrumsflokkur Íslands heldur beri hún þar höfuð og herðar yfir alla aðra flokka – þá gerist það að „Frjálslyndi flokkurinn“ minnir á tilveru sína. Neyðast menn þá yfirleitt til að viðurkenna að „frjálslyndir“ séu litlu skárri en Samfylkingarmenn þó þeir „frjálslyndu“ njóti þess að lýðskrumsmenn þeirra séu aðeins tveir, auk dóttur annars þeirra.
Undanfarna daga hafa svo kallaðir „netverjar“ verið æfir yfir reglugerð sem mælir fyrir um höfundarréttargjald af ýmsum varningi sem þeir kaupa mikið af. Hafa þeir meðal annars efnt til nokkurs konar undirskriftasöfnunar á Netinu þar sem reglugerðinni er mótmælt og hafa fjölmiðlar birt reglulegar fréttir af því hve mörg nöfn sé búið að skrifa á heimasíðu söfnunarinnar. Svo hefur virst af fréttum að hinar nýju reglur séu all óvinsælar og í gær ákváðu „frjálslyndir“ að stökkva á vagninn. „Frjálslyndi flokkurinn“ er nefnilega alveg á móti þessum nýju reglum og sendi frá sér sérstaka ályktun þar um.
Nú vill svo til – þó að því sé nú ekki mjög haldið á lofti – að hin nýja reglugerð sem menn eru svo á móti, hún er til komin vegna beinna fyrirmæla í lögum. Nánar tiltekið lögum nr. 73/1972, höfundalögum. Segir þar til dæmis í 11. gr. að höfundarétthafar eigi beinlínis rétt á höfundaréttargjaldi vegna segulbanda, diska, platna og annars slíks sem nota má til að fjölfalda verk þeirra. Einnig er fyrirskipað í þessum lögum að greitt skuli gjald af tækjum sem einkum séu ætluð til slíkrar upptöku. Og það er ekki bara ákveðið í lögunum að slíkt gjald skuli innheimt, í höfundalögum er beinlínis kveðið á um ýmsar einstakar fjárhæðir. Þannig er til dæmis ákveðið í lögum að gjald af böndum, diskum, plötum og öðru slíku til hljóðupptöku skuli vera 35 krónur. Ætti því flestum að vera ljóst, að rétt er að beina baráttu sinni að þessum lögum en ekki gegn nýrri reglugerð menntamálaráðherra, sem er eingöngu afleiðing þessara laga.
Höfundalögunum var breytt á síðasta ári. Í frumvarpi menntamálaráðherra var ekki kveðið á um þessa gjaldtöku sem nú hefur mest verið mótmælt. Hins vegar kom fram sérstök breytingartillaga sem var þess efnis að þessari nýju gjaldtöku – sem „Frjálslyndi flokkurinn“ er alfarið á móti – skyldi bætt inn í lögin. Sú breytingartillaga náði fram að ganga og því er hið óvinsæla höfundarréttargjald nú fyrirskipað í lögum. Meðal þeirra þingmanna sem studdu þá breytingu voru ýmsir merkir menn. Ekki eru hér tök á að telja þá alla upp en af handahófi má nefna nöfn eins og Sverrir Hermannsson og Guðjón A. Kristjánsson.