Þriðjudagur 6. mars 2001

65. tbl. 5. árg.

Vefþjóðviljinn hefur stundum minnst á glæsilegar og smekklegar útgáfur Vöku-Helgafells á íslenskum bókmenntaverkum. Þetta ljómandi forlag hefur nýlega sameinast öðru forlagi, Máli og menningu, og ber hið sameinaða fyrirtæki nafnið Edda – miðlun og útgáfa. Þetta nýja forlag virðist ætla að hefja leikinn með bravör og hefur nú stofnað til glæsilegrar ritraðar sem það auglýsti af krafti nú um helgina. Vefþjóðviljinn leyfir sér að fagna hinni nýju ritröð enda virðist hún hafa margt umfram aðrar slíkar ritraðir. Sérstök ástæða er til að nefna tvennt.

Í fyrsta lagi má vekja athygli á verði bókanna, en í auglýsingunum segir: „- fullt verð bókanna er 4.280 en áskriftarverð einungis 2.490 kr.“

Annað sem ekki er síður áhugavert er dreifing bókanna. Um hana segir í auglýsingunum: „Ritröðin er eingöngu í boði fyrir áskrifendur og fæst ekki á almennum markaði.“

Á síðasta ári setti bílaframleiðandinn Honda bílinn Insight á markað. Insight er svonefndur blendingsbíll, knúinn bæði bensíni og rafmagni og þeim kostum gæddur að hann kemst 100 km á 3,4 lítrum og er einn fárra bíla sem stenst allar kröfur Bandarísku umhverfismálastofnunarinnar um sparneytni. Ekki þarf að hlaða rafamagni um snúru á bílinn þar sem hann hleður sig á meðan sprengihreyfilinn vinnur. Ætla mætti að bíllinn væri græningjum kærkominn. Margar milljónir manna eru félagar í umhverfisverndarsamtökum og yfir 53 milljónir manna kusu hina kunnu umhverfisverndarsinna Nader og Gore í forsetakosningum. Patrick Michaels segir hins vegar frá því í pistli á heimasíðu CATO Institute að líklega hafi innan við þúsund þeirra keypt Insight. Kannanir hafa leitt í ljós að tvöfalt fleiri repúblikanar en demókratar hafa keypt bílinn en hann kostar 1,5 milljónir króna í Bandaríkjunum. Michaels segir að ef græningjar kaupi ekki bílinn og Honda hætti framleiðslu hans kasti þeir frá sér góðu tækifæri til að aka um á umhverfisvænum bíl.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem vilja skylda aðra til að gera góðverk eru tregir til að gera þau sjálfir. Minnir þetta til dæmis á „bíllausa“dag R-listans undanfarin ár og frammistöðu forsprakka hans sem óku sem aldrei fyrr um bæinn á bílum sínum.