Mánudagur 5. mars 2001

64. tbl. 5. árg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir átti náðugan dag í gær. Hún skrapp í huggulegt viðtal í Silfri Egils á Skjá 1 og þar beið hennar notaleg upprifjun á viðtali sem hún var í fyrir nokkrum dögum í Degi-Tímanum, en það viðtal var að mati þáttarstjórnandans mikil snilld. Ekki skal fjölyrt hér um viðtalið í Degi-Tímanum, en viðtalið á fyrrnefndri sjónvarpsstöð í gær var með þeim linari sem íslenskur forystumaður í stjórnmálum hefur farið í og er þá vissulega langt til jafnað miðað við öll þau mærðarviðtöl sem boðið er upp á hér á landi. Í viðtalinu var engri óþægilegri spurningu beint til Ingibjargar, en hún þess í stað látin úttala sig um stöðu andstæðinganna og hugsanleg taktísk mistök þeirra, rétt eins og Ingibjörg sé best til þess fallin að ræða það vegna hlutleysis og þekkingar á innviðum í herbúðum andstæðinganna. Svo fékk hún að tala þindarlaust um sýn sína varðandi borgarsamfélag 21. aldar, sem er allt annars konar borgarsamfélag en menn þekkja frá 20. öldinni. Að vísu er ekkert nýtt við þessa sýn eins og henni var þarna lýst, en Ingibjörg sagði sýnina orðna mikið áhugamál sitt.

Spyrillinn lét þetta allt yfir sig ganga og spurði einskis af því sem áhorfendur höfðu hugsanlega áhuga á að vita um eða Ingibjörg gat mögulega vitað nokkuð um. Það var til að mynda ekkert spurt að því hvers vegna kosning um flugvöll hefði ekki farið fram áður en ákveðið var fyrir skömmu hvar hann yrði næstu áratugi. Ekki var spurt hvers vegna borgin væri að hækka skatta og gjöld upp úr öllu valdi þrátt fyrir hátíðleg loforð um hið gagnstæða fyrir kosningar. Í framhaldi af því hefði svo mátt spyrja um hvers vegna borgin safnar skuldum þrátt fyrir skattahækkanir á meðan ríkið lækkar skatta og greiðir niður skuldir. Ekki hefði heldur verið úr vegi að spyrja út í það hvers vegna borgarfyrirtækið Lína.Net kastaði í fyrra – að eigin áliti – 200 milljónum króna út um gluggann við kaup á litlu fjarskiptafyrirtæki. Þá hefði mátt ræða um svikin loforð um eyðingu biðlista á dagvistarheimili, en þeir hafa sem kunnugt er aldrei verið lengri en nú, og svo hefði mátt ræða um yfirstjórn borgarinnar og hvernig á því stendur að hún hefur þanist út í tíð R-listans.

Þetta er langt í frá tæmandi listi yfir þær spurningar sem fólk hefði haft áhuga á að heyra borgarstjóra svara, en einhverra hluta vegna tókst spyrlinum að sneiða algerlega hjá öllum þessum spurningum og öðrum sem ekki þjónuðu pólitískum hagsmunum Ingibjargar Sólrúnar.