Helgarsprokið 4. mars 2001

63. tbl. 5. árg.

Það líður orðið vart það árdr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor sendi ekki frá sér eina bók – nema þegar tvær koma út. Á dögunum gaf Háskólaútgáfan út bókina Fiskar undir steini – sex ritgerðir í stjórnmálaheimspeki eftir Hannes Hólmstein. Í fyrstu ritgerðinni fjallar Hannes um Adam Smith, bæði manninn og hugmyndir hans, og umbrot í hugmyndaheiminum á síðari hluta átjándu aldar og hvaða áhrif þessi umbrot höfðu á heiminn, þar á meðal Ísland, á 19. öldinni. Tollmúrar hrundu, einokunarverslun var víða aflögð, iðngildi leystust upp, skattar voru lágir og gjaldmiðlar tiltölulega traustir. Hannes rekur svo lauslega hvernig þessar hugmyndir áttu undir högg að sækja í byrjun 20. aldarinnar með uppgangi sameignarstefnunnar. Hann tekur þann þráð svo upp að nýju í síðasta kafla bókarinnar, „Vegarnestið inn í nýja öld“, þar sem hann segir frá þróun efnahagsmála á Íslandi á 20. öld og hvernig við getum bætt hag okkar á nýrri öld. En áður en að því kemur tekur Hannes fyrir réttlætishugtök Hayeks og Nozicks, auðlindaskatt í sögulegu ljósi, fisk, eign og réttlæti og rök fyrir veiðigjaldi.

„Fylgismenn þriðju leiðarinnar, frjálslyndir félagshyggjumenn nútímans, virðast hins vegar stundum hafa minni áhuga á alþjóðaviðskiptum en alþjóðastofnunum, þar sem aragrúi gáfaðra, upplýstra og góðviljaðra manna starfa og telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir öðru fólki.“

En það er síðasti kaflinn sem er forvitnilegastur fyrir þá sem hafa áhuga á þróun íslensks þjóðfélags á næstu árum: Vegarnestið inn í nýja öld: Frelsi innan marka laganna. Hannes segir svo frá: „Tuttugasta öldin hófst ekki á Íslandi 1. janúar 1901, eins og ströngustu tímatalsfræðingar kunna að segja, heldur 1. febrúar 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn og skáldið og lögfræðingurinn Hannes Hafstein varð ráðherra. Hann og nánustu samstarfsmenn hans, þeir Jón Magnússon og Jón Þorláksson, sem báðir áttu síðar eftir að verða forsætisráðherrar, voru mótaðir af meginhugmyndum nítjándu aldar, frjálshyggju og nytjastefnu, eins og raunar Jón Sigurðsson forseti á undan þeim.“ „Á heimastjórnarárunum, 1904 – 1918, hófst mikið framfaraskeið. Um sama leyti og Hannes Hafstein varð ráðherra, var Íslandsbanki stofnaður með aðild útlendinga, og lánaði hann næstu áratugi verulegt fé til vélvæðingar í sjávarútvegi. Atvinnulíf var tiltölulega frjálst og skattheimta í hófi. Viðskipti við útlönd voru greið og íslensk króna jafngild hinni dönsku (svipað og skoskt pund hinu enska), en báðar á gullfæti, svo yfirvöld gátu lítt misbeitt seðlaprentunarvaldi sínu. Þetta breyttist allt í fyrri heimsstyrjöld, sem færði atvinnulíf úr skorðum hér sem annars staðar og torveldaði frjáls viðskipti. Fyrir rás viðburða og hyggindi Jóns Magnússonar fengu Íslendingar þó fullveldi 1. desember 1918. Íslenskt ríki varð þá til. Eftir stríð reyndi Jón Þorláksson að snúa aftur til hins fyrra skipulags efnahagsmála og stofnaði í því skyni fyrst Íhaldsflokkinn og síðan Sjálfstæðisflokkinn, en það mistókst, og frá 1927 og lengi frameftir var framsóknarmaðurinn Jónas Jónsson frá Hriflu langáhrifamesti stjórnmálamaður landsins, hvort sem hann hélt um stjórnartaumana eða ekki.“

Hannes rekur svo hvernig tók að rofa til að nýju í efnahagsmálum landsmanna á upphafsárum viðreisnarstjórnarinnar en frá haftabúskap, verðbólgulausnum og miðstýringu hafi menn í raun ekki ákveðið að hverfa að fullu fyrr en árið 1991. En hvað um framhaldið? Hannes víkur að hinni svonefndu þriðju leið sem felst í því að einhvers konar úrvalshópur fræðinga í stofnunum taki að sér að hagstjórn í stað þess að þróun efnahagsmála ráðist af framtaki einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Hannes veltir því upp spurningunni: Stofnanir eða sjálfsprottin samstilling? Svar hans er eftirfarandi: Frjálshyggjumenn eru alþjóðahyggjumenn, hlynntir frjálsum viðskiptum og öðrum eðlilegum samskiptum fólks óháð landamærum. Þeir gera sér grein fyrir því, að fáir þurfa eins á frjálsum alþjóðaviðskiptum að halda og Íslendingar, sem búa við opið hagkerfi, flytja mestalla sína framleiðslu út og fullnægja flestum neysluþörfum sínum með útlendum varningi. En fylgi við alþjóðaviðskipti er ekki nauðsynlega fylgi við alþjóðastofnanir, nema að því marki sem þær stuðla að alþjóðaviðskiptum sem sumar gera vitaskuld, til dæmis Atlantshafsbandalagið með því að tryggja frið á Norður-Atlantshafssvæðinu. Fylgismenn þriðju leiðarinnar, frjálslyndir félagshyggjumenn nútímans, virðast hins vegar stundum hafa minni áhuga á alþjóðaviðskiptum en alþjóðastofnunum, þar sem aragrúi gáfaðra, upplýstra og góðviljaðra manna starfa og telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir öðru fólki. Frjálslyndir félagshyggjumenn telja til dæmis margir, að Íslendingar eigi hið bráðasta að ganga í Evrópusambandið. Frjálshyggjumenn eru blendnari í afstöðu sinni. Evrópusambandið var upphaflega tollabandalag, sem smám saman hefur verið að breytast í einhvers konar ríkjasamband eða jafnvel sambandsríki, um leið og það hefur haldið áfram að vera tollabandalag. En tollabandalög eru frelsinu ekki alltaf til framdráttar. Þær þjóðir sem setja háa tolla á innflutningsvörur, tapa mestu á því sjálfar, eins og Adam Smith sýndi fram á. Rétta ráðið gegn tollum er því að fella þá niður, hvað sem aðrar þjóðir gera, í stað þess að mynda bandalag við nokkrar aðrar þjóðir um gagnkvæma lækkun tolla, en um leið tollvernd gegn þeim, sem utan standa. Þó að stór markaður girtur tollmúrum sé skömminni skárri en lítill, af því að betri skilyrði eru vegna stærðarinnar fyrir fjörugri samkeppni, standa tollmúrar engu að síður, skaða neytendur innan þeirra og framleiðendur utan þeirra, en oft eru þeir fátækar þjóðir, sem bjóða fram ódýra vöru. Evrópusambandið hefur leitt af sér margt gott, en annað miður gott. Það hefur aukið frelsi og minnkað í senn, því að frá höfuðstöðvum þess í Brüssel berst á hverjum degi skæðadrífa reglugerða um stórt og smátt. Stefna bandalagsins í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum er vanhugsuð og óhagkvæm með afbrigðum.“