Hástemmdir tilfinningastjórnmálamenn hafa haft í mörg horn að líta undanfarnar vikur. Fyrst áttu öryrkjamál hug þeirra allan og þarf ekki að rifja upp þann hugaræsing sem þeir komust þá í, eða þau stóru orð sem þeir notuðu daginn út og inn þegar sú umræða stóð sem hæst. Og nú þegar öryrkjamálum er lokið þá hefur næsta mál tekið við. Nú eru vinstri menn í öngum sínum yfir nýjum stóratburðum sem þeir hafa uppgötvað – og þeim er ekki skemmt frekar en fyrri daginn. Að þessu sinni eru þeir rasandi yfir því að Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að leita tilboða einkaaðila í rekstur eins tiltekins grunnskóla í bænum. Og eins og venjulega spara vinstri menn ekki stóru orðin. Nú fordæma þeir harðlega það sem þeir kalla „tilraunir á börnum“ og þarf enginn að velkjast í vafa um að þeir tækju fyrir alla slíka tilraunastarfsemi ef þeir næðu völdum í Hafnarfirði.
„Tilraunir á börnum“, það er ekkert minna sem er á ferðinni í firðinum. Eflaust þykir mörgum sem það hljómi nú ekki vel og því sé varla undarlegt þó vinstri menn – sem eins og menn vita hafa meiri réttlætiskennd en allir aðrir menn til samans – séu titrandi af réttlátri reiði. Já, er ekki einfaldlega verið að undirbúa óhæfuverk þarna í Hafnarfirði?
Svo undarlegt sem það er, þá er eins og umræður um menntamál kalli fram enn fleiri frasa og innantómar staðhæfingar en margir aðrir málaflokkar virðast útheimta. Eða hvert mark á að taka á þessum nýjustu upphrópunum um „tilraunir á börnum“? Þeir sem hæst hrópa, eru þeir í raun á móti öllum tilraunum í skólastarfi? Því það væru „tilraunir á börnum“? Þeir sem hæst hrópa, eru þeir á því að ekki megi kenna á nokkurn annan hátt en gert hefur verið? Það væru líklega „tilraunir á börnum“. Þeir sem hæst hrópa, eru þeir þeirrar skoðunar að í skólamálum megi menn ekki prófa sig áfram með nokkurn hlut? Væri það ekki „tilraunir á börnum“? Þeir sem hæst hrópa, eru þeir þeirrar skoðunar að fyrir eitthvert einstakt happ sé í öllum íslenskum skólum starfað eftir bestu mögulegu aðferð og þar megi ekki reyna neitt nýtt? Það væri nú líklega „tilraun á börnum“.
Og þeir sem nú standa á öndinni yfir væntanlegri tilraunastarfsemi í Hafnarfirði, voru þeir ekki líka viti sínu fjær yfir því að árum saman hafi verið rekinn sérstakur skóli í Reykjavík, „Æfingaskóli Kennaraháskóla Íslands“, sem beinlínis var ætlaður til þess að kennaranemar gætu æft sig á saklausum börnum? Voru þar kannski ekki stundaðar „tilraunir á börnum“?
Eru þessir vandlætingarmenn ekki örugglega í raun í heilagri baráttu fyrir blessuð börnin og í einlægri vörn gegn óhugnanlegum „tilraunum á börnum“?
Eða eru þeir bara venjulegir vinstri menn sem munu nota hvaða vopn og hvaða rök sem er, til að berjast gegn framþróun, hvar sem þeir verða hennar varir?